Jacqueline Brjóstmynd Picassos af konu sinni Jacqueline Roque Picasso sem að listamanninum látnum færði frú Vigdísi Finnbogadóttur verkið að gjöf íslensku þjóðinni til handa.
Jacqueline Brjóstmynd Picassos af konu sinni Jacqueline Roque Picasso sem að listamanninum látnum færði frú Vigdísi Finnbogadóttur verkið að gjöf íslensku þjóðinni til handa. — Morgunblaðið/G.Rúnar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Starfsemi safna og gallería er oftast árstíðabundin.

Starfsemi safna og gallería er oftast árstíðabundin. Sumrin eru hálfgerður gúrkutími, minni gallerí loka jafnvel í júlí eða setja saman blandaða sumarsýningu þar sem sjá má hitt og þetta, oftast úrval þeirra listamanna sem viðkomandi hefur á sínum snærum. Stærri listasöfn setja gjarnan upp sumarsýningar með hliðsjón af þeim fjölda ferðamanna sem þá leggja leið sína þangað. Vetrarstarfsemin hefst síðan með látum í september þegar flóðbylgja af nýjum sýningum skellur á, og ekkert lát er á til jóla en þá setja minni staðir stundum upp bland í poka til jólagjafainnkaupa. Sumir segja janúar og febrúar vera bestu mánuðina fyrir listamenn að sýna verk sín, í skammdeginu eftir jólaorgíuna þyrstir fólk í raunveruleg gildi. Að vetrinum eru líka ýmsar menningarhátíðir sem sífellt fer fjölgandi, en þegar kemur fram á vorið er maí fastur mánuður listahátíðar.

Nú er hins vegar júlí, og í Listasafni Íslands er sumarsýning. Þegar slík sýning er skoðuð setur maður sig alveg óvart í hálfgerðar stellingar og býr sig undir að sjá einhvers konar úrdrátt úr íslenskri listasögu með aðaláherslu á landslag – nokkuð sem í sjálfu sér er gott og gilt sem slíkt. En nú eru nýir tímar á Listasafni Íslands þar sem Halldór Björn Runólfsson safnstjóri hefur þegar birt sínar línur í sýningarstefnu safnsins, með áherslu á að blanda saman innlendum og erlendum listamönnum, sem og að leitast við að nýta sali safnsins til hins ýtrasta og gefa einstökum listamönnum og verkum gott rými.

Sumarsýning safnsins í ár er tvískipt – annars vegar standa enn verk þeirra Elínar Hansdóttur og Steinu Vasulka frá sýningu Listahátíðar í vor en hvort verkið um sig leggur undir sig heilan sal, en einn af listgagnrýnendum Morgunblaðsins, Anna Jóa, hefur þegar fjallað um þessi verk í gagnrýni sinni um sýninguna á Listahátíð.

Sumarsýningin sem Halldór Björn hefur sett saman er síðan í tveimur sölum og er þar valið úr safneign eins og venja er til. Sýninguna kallar hann Hin klassísku gildi og leggur út af ólíkum tengslum listamanna við klassísk gildi myndlistarinnar, form og liti. Sýningin hverfist um verk eftir Picasso, Jacqueline með gulan borða frá árinu 1962, en list Picasso á sér vísun í list allra tíma.

Salur eitt byggir einna mest á óhlutbundnum verkum og þar fá margir að njóta sín. Sjá má náin sjónræn tengsl margra listamanna, stærri og smærri verk. Stundum skapast óvæntar tengingar, eins og þegar gulur litur í verki Magnúsar Kjartanssonar kallast á við gulan glugga í málverki eftir Snorra Arinbjarnar, líkt og tenging lífsgleði og litaástríðu, óháð tíma, stíl eða formi. Einnig er kærkomið að sjá sterk málverk eftir þau Gunnar Örn heitinn og Jóhönnu Kristínu Yngvadóttur, flotta málara sem hafa skilið eftir sig dýrmæt spor í sögunni.

Eins og vera ber er landslagið að finna í næsta sal, en þar er t.d. áhugavert að sjá litlar skissur eftir Gunnlaug Scheving og teikningar og klippimyndir eftir Finn Jónsson. Lítið veggteppi eftir Júlíönu Sveinsdóttur nýtur sín vel við hlið skógarmyndar sem aftur kallast á við Skógarhöll Kjarvals. Hér eru margar þekktar perlur eins og Flyðra Muggs og fleira, en það gæðir báða salina miklu lífi að blanda saman minni og stærri verkum, skissum og teikningum. Ekki voru bara ferðamenn að skoða þegar ég var þarna á ferð heldur líka þó nokkrir landar sem nutu þessarar fjölbreyttu sýningar. Ekki er reynt að birta listasöguna eins og hún leggur sig eða gefa heildarmynd af einu eða neinu, heldur dregin saman ólík verk sem eiga þó ákveðna þætti sameiginlega. Slík sýning gefur mynd af þeirri miklu fjölbreytni sem einkennir safneignina og gerir spurninguna um það hvenær það verði álitið einhvers virði að þjóðin eignist listasafn þar sem myndlistin okkar verði aðgengileg almenningi áleitnari en nokkru sinni.

ragnahoh@gmail.com

Ragna Sigurðardóttir

Höf.: Ragna Sigurðardóttir