Eftir Þröst Emilsson the@24stundir.is „Það er auðvitað brýnt að vinna heildarskipulag fyrir svæðið og kynna það með lýðræðislegum hætti fyrir íbúum Skerjafjarðar áður en framkvæmdir hefjast,“ segir Pálmi Jónasson, íbúi við Bauganes.

Eftir Þröst Emilsson

the@24stundir.is

„Það er auðvitað brýnt að vinna heildarskipulag fyrir svæðið og kynna það með lýðræðislegum hætti fyrir íbúum Skerjafjarðar áður en framkvæmdir hefjast,“ segir Pálmi Jónasson, íbúi við Bauganes.

Hann er einn þeirra sem leggjast gegn því að settur verði upp sparkvöllur með mörkum á auðu svæði milli Bauganess og Skildinganess.

„Ekki vegna þess að ég eða aðrir andstæðingar framkvæmdanna á þessu svæði séum á móti börnum eða leikjum þeirra, heldur vegna þess að við teljum að það ætti fyrst að lagfæra þann sparkvöll sem fyrir er í hverfinu, völlinn við Skeljatanga. Svæðið sem um er deilt má svo eftir sem áður nýta til leikja af öllu tagi fyrir yngstu börnin,“ segir Pálmi.

Garðyrkjustjóri borgarinnar hefur í bréfi til íbúa hverfisins efast um að svæðið sem nú er deilt um beri sparkvöll og því sé ekki hyggilegt að setja þar upp mörk.

Á dögunum voru borgarstjóra, garðyrkjustjóra og borgarfulltrúum afhentir undirskriftalistar íbúa Skerjafjarðar sunnan flugvallar. Gengið var í hús og leitað eftir stuðningi við að sett verði mörk á svæðið. Af þeim sem þátt tóku sögðust tæplega 92% fylgjandi.

Í bréfi sem Örnólfur Thorsson, íbúi við Bauganes, sendi garðyrkjustjóra áður en fyrrnefnd könnun var gerð segir að fáeinir áhugamenn um knattspyrnu hafi beitt sér af miklum þunga fyrir knattspyrnuvelli á svæðinu. Þeir tali þó bara fyrir sinn munn og alls ekki fyrir meirihluta íbúa „í þessu annars friðsæla hverfi“.

Íbúar hverfisins sem rætt var við telja sparkvöll á umdeilda svæðinu aðeins bráðabirgðalausn. Koma eigi upp velli í hverfinu til frambúðar, upphituðum battavelli með gervigrasi, líkt og finna megi í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur. Að því verði borgin að huga sem fyrst.

Í hnotskurn
Alls hafa 115 sparkvellir verið byggðir á landinu síðustu fjögur ár í sparkvallaátaki KSÍ og UEFA. 6 vellir eru í Kópavogi, 3 í Hafnarfirði, 1 í Mosfellsbæ, 1 á Seltjarnarnesi. Í Reykjavík eru 3 vellir við nýjustu skóla borgarinnar.