Eftir Kristjönu Guðbrandsdóttur
dista@24stundir.is
„Ég er 53 ára og hef aldrei misst af þjóðhátíð og hef starfað að henni í mörg ár og haft gaman af,“ segir Stefán Agnarsson, járnsmiður og íþróttafrömuður í Eyjum. Stefán hefur komið að undirbúningi hátíðarinnar í mörg ár og segir hátíðina í ár vera spennandi og tilhlökkunarefni. „Dagskráin verður alltaf betri með hverju árinu, þjóðhátíð er alltaf þjóðhátíð og hún er alltaf skemmtileg,“ bætir hann við og er ófáanlegur til að benda á eftirminnilega hátíð.
„Mér finnast þessir föstu liðir eins og brennan, flugeldasýningin og setningarathöfnin vera hápunktar hátíðarinnar hverju sinni,“ segir hann. „Á setningunni eru að auki allir prúðbúnir og þá er hátíðleg stemning sem gaman er að. Þetta er nú einu sinni fjölskylduhátíð. Margir vilja meina að þetta sé unglingahátíð en svo er ekki, þjóðhátíð er meiri fjölskylduhátíð og í dagskránni er það auðséð að hér er mikið um að vera fyrir börn og barnafólk.“
Allir sem einn í Eyjum
Byggðin í Vestmannaeyjum tekur miklum breytingum yfir verslunarmannahelgina, þangað koma yfir 10 þúsund manns á öllum aldri. Stefán segir Eyjamenn vel í stakk búna að taka á móti svo mörgum gestum í sínu bæjarfélagi.„Öll vandamál sem hafa komið upp hafa verið leyst fljótt því að það eru íþróttafélögin sem standa að hátíðinni og eru allir í viðbragðsstöðu ef eitthvað kemur upp á. Í Eyjum stendur enginn og horfir aðgerðalaus á ef eitthvað er að, eins og svo algengt er annars orðið í samfélaginu.“
Eru Vestmannaeyingar ein stór fjölskylda?
„Já, þetta virkar svolítið þannig,“ segir Stefán. „Eins og ein stór útigrillveisla hjá stórri fjölskyldu,“ bætir hann við og hlær. Í samfélaginu hér er almennt mikil samkennd, rætt um hvort það sé mikið að gera og hvert stefnir. Á þjóðhátíð er svo samkenndin líklegast í hámarki.“
Stefán og fjölskylda setja upp hvítt tjald yfir hátíðirnar þar sem boðið er upp á veitingar og skjól fyrir veðri og vindum. „Ég gæti ekki verið án þess að hafa tjald,“ segir hann. „Það er svo gott að hafa hlýjan stað til að koma saman á og gott að safna þar orku, fá sér bita og eitthvað gott að drekka.“
Aðspurður hvort honum þyki verra að það rigni á þjóðhátíð segir hann að sér standi á sama um rigninguna. „Leiðinlegra er að fá mikið rok,“ segir hann. „Ég minnist þess að það hafi verið leiðinlegt veður árið 2002, þá höfðum við skreytt fallega með kínaljósum. Þau fuku öll og brotnuðu. Annars er veðrið ekki aðalatriðið, heldur sú einstaka stemning sem verður á þjóðhátíð og hún verður ekki síður til í vondum veðrum en góðum.“