Eftir Hlyn Orra Stefánsson
hlynur@24stundir.is
„Það eru stöðugar árásir á okkur hérna í Kópavogi,“ segir Össur Valdimarsson strætisvagnastjóri. „Þetta eru unglingagengi sem virðast vera í einhvers konar ævintýraleit.“
Össur tekur undir með Bergi Helgasyni um að strætisvagnastjórar verði fyrir meiri áreitni í Kópavogi en áður. Bergur varð fyrir því að skotið var úr loftbyssu í rúðu strætisvagns sem hann ók eftir Dalsmára í fyrradag. Skotið lenti í rúðu rétt fyrir aftan klefa vagnstjórans.
Miklar sprungur komu í rúðuna, en hún brotnaði ekki í fyrstu og hlaut enginn skaða af. Bæði Bergi og farþegum var hins vegar mjög brugðið.
Ástandið versnað frá áramótum
„Ástandið hefur versnað mjög frá áramótum,“ segir Össur.„Við beinum því vinsamlegum tilmælum til foreldra um að þeir brýni það fyrir krökkunum að þeir láti vagnstjóra í friði.“
Fyrir nokkrum vikum réðst ungur maður á strætisvagnastjóra sem ók eftir Dalsmára. Þurftu lögreglumenn að fjarlægja árásarmanninn, sem virtist hafa ýmislegt við aksturslag vagnstjórans að athuga.
Kasta sígarettu í stjórann
Unglingar kasta í sífellu eggjum og vatnsblöðrum í vagnana, og jafnvel í vagnstjórana ef þeir geta, segir Össur. Um daginn lenti hann í því að sígarettu var kastað í hann þar sem hann sat undir stýri.„Unglingsstrákur gaf mér merki um stoppa, sem ég gerði þar sem ég hélt að hann vildi koma upp í vagninn. Þegar ég opnaði bílinn spurði hann mig hvað klukkan væri. Ég sagði honum það, en þá skaut hann sígarettu inn í vagninn og hljóp svo í burtu.“
Hann bendir á að það geti skapað hættu þegar krakkar hendi vatnsblöðrum eða eggjum í vagnana. Við það komi mikill dynkur sem vagnstjórum geti brugðið við.
Unglingarnir nást ekki
„Ég hef sjálfur hringt nokkrum sinnum í lögregluna vegna þessa en fengið þau svör að ef við vitum ekki hverjir þetta eru sé ekkert hægt að gera.Það versta við þetta er að þessir unglingar nást aldrei. Við sem erum að keyra höfum engan tíma til að stoppa vagninn og hlaupa á eftir krökkunum,“ segir Össur.
Hann tekur þó fram að um sé að ræða örfáa unglinga, og ekki megi dæma alla unglinga af þessu.
Ármann Kr. Ólafsson, stjórnarformaður Strætó bs., hafði hvorki heyrt um skotárásina né umrætt ástand í Kópavogi þegar 24 stundir náðu tali af honum.
„En að sjálfsögðu munum við fara yfir það ef starfsfólk okkar vinnur ekki við þau skilyrði sem eðlileg geta talist. Það er ólíðandi ef starfsfólki okkar er sýndur ruddaskapur og ókurteisi,“ segir hann.