Eftir Grétar Júníus Guðmundsson gretar@mbl.is LÍKLEGT er að allt að fimmtungur af öllum þeim olíu- og gaslindum sem eftir er að finna í heiminum í dag séu á Norðurheimskautssvæðinu.

Eftir Grétar Júníus Guðmundsson

gretar@mbl.is

LÍKLEGT er að allt að fimmtungur af öllum þeim olíu- og gaslindum sem eftir er að finna í heiminum í dag séu á Norðurheimskautssvæðinu. Þetta er niðurstaða rannsóknar bandarísku jarðfræðistofnunarinnar (United States Geological Survey, USGS) sem birt var í fyrradag.

Í frétt New York Times segir að þessi nýja rannsókn jarðfræðistofnunarinnar sé sú viðamesta sem framkvæmd hafi verið á olíu- og gasbirgðum Norðurheimskautssvæðisins til þessa. Stóru olíufyrirtækin hafi lengi talið að mikla olíu sé að finna á þessu svæði og hafi varið háum fjárhæðum í að komast yfir þær. Þá segir í fréttinni að með þiðnun íss á norðurslóðum og auknum möguleikum á ferðum þar um sé nú hafið mikið kapphlaup meðal þeirra ríkja sem eigi land þar að um yfirráð yfir þessum auðlindum. Þar á meðal séu Bandaríkin, Rússland og Kanada.

Um 90 milljarðar tunna

Jarðfræðistofnunin telur að samtals sé að finna um 90 milljarða tunna af vinnanlegri olíu á Norðurheimskautssvæðinu og 1.670 billjónir rúmfeta af jarðgasi. Miðað við núverandi olíunotkun í heiminum myndi þetta duga til að anna eftirspurninni á heimsvísu í nærri þrjú ár.