FRÁSÖGN Kolbrúnar Baldursdóttur sálfræðings af kostnaði við líkgeymslu fjölskyldumeðlims í þrjár nætur hefur vakið athygli en dvölin kostaði um 19 þúsund krónur.

FRÁSÖGN Kolbrúnar Baldursdóttur sálfræðings af kostnaði við líkgeymslu fjölskyldumeðlims í þrjár nætur hefur vakið athygli en dvölin kostaði um 19 þúsund krónur.

Stærstu líkhús landsins eru á forræði kirkjugarðanna, en einnig eru nokkur líkhús einkarekin.

Smári Sigurðsson, framkvæmdastjóri Kirkjugarða Akureyrar, segir að menn þurfi að gera upp við sig hvernig standa eigi að rekstrarkostnaði líkhúsa. Ef menn komist að þeirri niðurstöðu að ríkið eigi að greiða kostnaðinn þurfi það að leggja fram fjármuni til rekstursins en sé niðurstaðan sú að einstaklingar eigi að borga fyrir þjónustuna sárvanti gjaldtökuheimild.

Hann segir rekstur aðstöðunnar bagga á kirkjugörðunum sem fái í dag hvorki fjármagn til rekstrarins frá hinu opinbera né megi þeir taka gjöld fyrir þjónustuna.

„Árið 2005 var samþykktur samningur á milli ríkisins og kirkjugarða þar sem er skilgreint mjög nákvæmlega fyrir hvað kirkjugarðarnir fá greitt. Það er alveg reiknað út að þeir fá svona mikið á fermetra og svona mikið á hverja gröf. Kirkjugarðarnir lögðu mikla áherslu á að inn í samninginn yrði tekinn rekstur líkhúsa en því var hafnað.“

Fæst líkhús taka gjald

Morgunblaðinu er eingöngu kunnugt um einn opinberan kirkjugarð sem tekur líkhúsgjald. Það er Borgarneskirkjugarður sem hefur líkhús á sínum snærum, og rukkar garðurinn 10 þúsund krónur fyrir dvölina. Aðrir kirkjugarðar, t.d. á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri, taka ekki gjald. Þá virðast a.m.k. einhverjir einkaaðilar, sem reka líkhús, taka gjald fyrir dvölina, en í tilviki Kolbrúnar var um slíkt að ræða. andresth@mbl.is

Í hnotskurn
» Kolbrún Baldursdóttur, sálfræðingur og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, telur að hið opinbera eigi að greiða líkhúsgjaldið fyrir alla.
» Árið 2006 kom út álit umboðsmanns Alþingis þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að lagaheimild væri ekki til staðar fyrir töku á líkhúsgjaldi hjá Kirkjugörðum Reykjavíkurprófastsdæma sem reknir eru fyrir opinbert fé.
» Talsmaður Kirkjugarða Akureyrar segir menn þarfa að gera upp við sig hvernig standa eigi að rekstrarkostnaði.