Eyland Sænskum skátum hefur hér tekist að smíða sér fleka og leggja nú af stað í átt að lítilli eyju á Leirupollinum.
Eyland Sænskum skátum hefur hér tekist að smíða sér fleka og leggja nú af stað í átt að lítilli eyju á Leirupollinum. — Morgunblaðið/Hjálmar S. Brynjólfsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Hjálmar Stefán Brynjólfsson hsb@mbl.is Akureyri | „Það hefur gengið furðulega vel að koma upp þessu rúmlega 3.000 manna bæjarfélagi,“ segir Birgir Örn Björnsson, mótsstjóri á Landsmóti skáta, sem nú fer fram á Akureyri.

Eftir Hjálmar Stefán Brynjólfsson

hsb@mbl.is

Akureyri | „Það hefur gengið furðulega vel að koma upp þessu rúmlega 3.000 manna bæjarfélagi,“ segir Birgir Örn Björnsson, mótsstjóri á Landsmóti skáta, sem nú fer fram á Akureyri. „Fólk er mjög ánægt og nú er blómlegt víkingasamfélag hér á Hömrum. Við höfum hér verslun til að kaupa nauðsynjar, víkingaþorp til að smíða verkfæri, ráðhús, hreinlætisaðstöðu og allt sem þarf til að láta samfélag sem þetta ganga.“

Samfélagið á Hömrum stækkar ört og gerir Birgir ráð fyrir því að það muni stækka enn meira um helgina. Þá verða fleiri gestir á fjölskyldutjaldsvæðum hátíðarinnar.

Öflugt fjölmiðlastarf fer fram á landsmótinu

Landsmótin eru haldin hér á landi á þriggja ára fresti, til skiptis við Úlfljótsvatn og á Hömrum. Alls taka 70 skátafélög þátt á mótinu, en þar af eru nokkur frá útlöndum. Allir þátttakendur taka þátt í að leysa sérstök verkefni og segir Birgir Örn að mikil þátttaka félaga að utan sé ekki hvað síst öflugri dagskrá að þakka. Flestir erlendu gestanna koma frá Stóra-Bretlandi, en einnig er einn gestur frá Suður-Kóreu.

Tveir öflugir fjölmiðlar eru starfræktir á Landsmótinu: útvarpsstöðin Ragnarök og dagblaðið Sleipnir. Ragnarök sendir út á tíðninni 97,7 á Akureyri og 97,2 í Reykjavík og er hægt að hlusta á útvarpið í gegnum netið. Sleipnir er einnig fáanlegur á netinu á heimasíðu Landsmótsins:

www.skatar.is/landsmot2008.

„Hefur verið frábært“

Á MEÐAN blaðamaður brá sér að skoða flekasmíði og stemninguna við pollinn gegnt Leirunesti hitti hann þá Rúnar og Frey úr skátafélaginu Vífli í Garðabæ. Þeir hafa skemmt sér afar vel á Landsmótinu. „Já, þetta er búið að vera mjög gaman,“ segir Rúnar. „Við erum búnir að labba fullt og skoða bæinn. Við eigum eftir að smíða fleka og prófa að sigla á honum.“

Freyr var hins vegar spenntari fyrir því að prófa að smíða úr járni. Járnsmíðin er partur af víkingaþema mótsins, og á meðal þess sem hægt verður að smíða eru matarskálar. Freyr ætlar hins vegar að ganga skrefinu lengra: „Ég er að hugsa um að smíða mér hníf.“