Kann sitt fag Árni veit vel hvað virkar þegar kemur að fjöldasöng.
Kann sitt fag Árni veit vel hvað virkar þegar kemur að fjöldasöng.
„Ég byrjaði á brekkusöngnum árið 1977. Það kom þannig til að ég var settur kynnir á þjóðhátíð.

„Ég byrjaði á brekkusöngnum árið 1977. Það kom þannig til að ég var settur kynnir á þjóðhátíð. Þá var Stefán Árnason yfirlögregluþjónn nýlega fallinn frá en hann hafði verið kynnir í um 30 ár og ég tók við af honum,“ segir Árni Johnsen en hann er eins og allir vita upphafsmaðurinn á hinu sívinsæla fyrirbæri sem brekkusöngurinn á þjóðhátíð er.

„Sunnudagskvöldið hafði í rauninni alltaf verið frekar rólegt kvöld og með takmarkaðri dagskrá en þá datt mér í hug að prófa að hafa brekkusöng. Og hann bara féll í kramið eins og skot.“

Sami grunnurinn frá upphafi

Árni segir að þótt hann skipti stundum út lögunum þá hafi hann notast við sama grunninn frá upphafi.

„Ég vel gamalkunn fjöldasöngslög sem þorrinn kann. Fólk verður aldrei þreytt á þessum lögum og ekki ég heldur.“

Segir hann jafnframt að það sé þannig sem fólk vilji hafa það og hann telur að of miklum breytingum yrði ekki vel tekið.

„Ég hef bara reynslu af því að syngja með fólki um land allt á yfir þrjú þúsund samkomum á undanförnum áratugum og ég veit alveg hvað hentar og hvað virkar.

Ég spila á gítarinn allt árið um kring, nokkrum sinnum í viku, og það er fullt af lögum sem mér finnst gaman að spila. En þau passa ekki endilega inn í brekkusönginn og maður verður að taka tillit til þess hvað flestir kunna.“

Koma bara fyrir brekkusönginn

Árni hefur tekið eftir því síðustu ár að ákveðinn fjöldi fólks mætir ekki á þjóðhátíð fyrr en á sunnudeginum og þá jafnvel einungis til þess að taka þátt í brekkusöngnum.

„Þetta hefur verið svona síðustu fimm til tíu ár og það er svolítið merkilegt því það er í rauninni frekar dýrt að fara til Eyja bara fyrir eina kvöldstund. En fimm til sex hundruð manns virðast vera að koma bara fyrir brekkusönginn.“

Endar á þjóðsöngnum

Önnur breyting sem hefur átt sér stað síðustu ár er að Árni hefur endað brekkusönginn á því að taka þjóðsönginn. Undanfarið hafa margir viljað meina að Íslendingar kunni þjóðsönginn illa og einhverjir hafa hreinlega stungið upp á því að nýr yrði valinn. En Árni segir að Íslendingar kunni þjóðsönginn nú samt.

„Fyrir svona tíu árum þá byrjaði ég að taka þjóðsönginn í lok brekkusöngsins og það er rosalega flott tónlistaratriði þegar tíu þúsund manna kór syngur hann. Og hvergi annars staðar syngja svo margir íslenska þjóðsönginn saman. Og fólk kann hann. En hins vegar er hann alltaf sunginn af kórum og einsöngvurum í kirkjum og víðar og þá í g-dúr. En g-dúrinn í þjóðsöngnum er bara fyrir þjálfaða söngvara. Ég spila hann hins vegar í c-dúr þannig að 95% af fólki ræður ágætlega við hann.“

Hann segir líka að það hversu vel hann hljómar í Dalnum gefi til kynna að ólíkt því sem margir halda þá kunna Íslendingar þjóðsönginn ágætlega.

Þá segir hann að þótt sérstök stemning myndist í þjóðsöngnum séu fleiri lög sem hann njóti sérstaklega að taka og séu jafnvel hans uppáhalds.

„Það er mjög skemmtilegt að taka syrpuna Þýtur í laufi og Viltu með mér vaka,“ segir Árni og bætir við: „Það eru svona stuðlög sem allir dilla sér við.“

haukurj@24stundir.is