— Reuters
Eftir Steingrím Sigurgeirsson sts@mbl.is Við höldum okkur við Nýja heiminn í þessari viku og þá aðallega Argentínu en vín þaðan njóta vaxandi vinsælda víðast hvar og er Ísland þar engin undantekning.

Eftir Steingrím Sigurgeirsson

sts@mbl.is

Við höldum okkur við Nýja heiminn í þessari viku og þá aðallega Argentínu en vín þaðan njóta vaxandi vinsælda víðast hvar og er Ísland þar engin undantekning.

Finca Las Moras er nýtt vínhús hér á markaðnum en fyrirtækið er staðsett á svæðinu San Juan við rætur Andesfjalla.

Las Moras Intis Sauvignon Blanc 2007 er um margt ótýpískur Sauvignon, í nefi sætur og sultaður ávöxtur, rifsber. Ávöxturinn heitur, örlítið kryddaður og þykkur með töluverðri sýru. 1.090 krónur. 86/100

Las Moras Chardonnay 2007 er hins vegar alldæmigerður Nýja heims Chardonnay, þarna er mikill hitabeltisávöxtur og sítrus í bland við möndlur, ferskt með þægilegri ávaxtasætu og mildri eik. Tilvalið sumarvín. 1.190 krónur. 88/100

Las Moras Cabernet Sauvignon 2007 er kannski ekki „mikið“ vín en þetta er hreinn og beinn Cabernet með fínum sólberjaávexti og örlitlum tannínum, vín sem er létteikað og þægilegt. 1.190 krónur. 87/100

Trivento er annað argentínskt vínhús, í eigu chileska vínrisans Concha y Toro sem réðst í gífurlega mikla fjárfestingu hinum megin við Andesfjöllin.

Rauðvínið Trivento Amado sur 2006 er ágætis blanda úr Malbec, Syrah og Bonarda þar sem jafnt frönsk og amerísk eik hefur verið notuð til að ná fram fleiri blæbrigðum. Dökkur ávöxtur, sólber og bláber, bjart, þétt og nokkuð tannískt í lokin. 1.400 krónur. 89/100

Loks eitt hvítvín frá Ástralíu, nánar tiltekið frá Viktoríu en aðstæður þar eru töluvert frábrugðnar þeim í Suður-Ástralíu þaðan sem flest áströlsk vín sem hingað rata eiga rætur sínar að rekja. Alla jafna er loftslagið svalara og því betri aðstæður til framleiðslu hvítvíns en á hinum sjóðheitu ræktunarsvæðum Suður-Ástralíu

Green Point Chardonnay 2004 er vín sem framleitt er af fyrirtæki í eigu franska kampavínshússins Moet et Chandon. Í nefi rautt greip, límóna og hitabeltisávöxtur á borð við ananas, smjörkenndur og feitur. Hefur flotta skerpu og lengd. 1.980 krónur í sérpöntun. 90/100