— 24stundir/Albert Kemp
Þeir sem sækja Fáskrúðsfjörð heim um helgina halda ef til vill að þeir séu komnir í lítið franskt sjávarþorp. Meiri áhersla er lögð á franska menningu en áður á bæjarhátíðinni Frönskum dögum.

Eftir Einar Jónsson

einarj@24stundir.is

Árlega bæjarhátíðin Franskir dagar er nýhafin á Fáskrúðsfirði og stendur svo sannarlega undir nafni að þessu sinni. „Það er lögð enn meiri áhersla á það núna að fólk upplifi sig eins og það sé í Frakklandi, að það upplifi Frakkland í maganum, heyri það og sjái,“ segir Hulda Guðnadóttir, framkvæmdastjóri hátíðarinnar. Frönsk tónlist ómar í bænum og franskur matur verður á boðstólum í veitingahúsum. Þá verður Íslandsmeistaramótið í franska boltaleiknum pétanque á sínum stað og árlega hjólreiðakeppnin Tour de Fáskrúðsfjörður.

„Það er verið að reyna að efla tengslin milli Frakklands og Íslands og að gera þenna bæ að franska bænum,“ segir Hulda og bætir við að Franskir dagar séu liður í því.

Skúta á næsta ári

Fulltrúar frönsku þjóðarinnar láta sig ekki vanta á hátíðina en þar verða fimmtán Frakkar að störfum á vegum Veraldarvina. Einnig koma fulltrúar frá Gravelines sem er franskur vinabær Fáskrúðsfjarðar. „Þar er mjög mikill áhugi á þessu. Á næsta ári ætla þeir að senda til okkar skútu með 49 krossum sem fara í Franska kirkjugarðinn,“ segir Hulda.

Börn og ungmenni ættu ekki að þurfa að láta sér leiðast á Frönskum dögum enda sitthvað í boði fyrir þau. Meðal annars verða leiktæki á staðnum, barnaleiksýning, dorgveiðikeppni og kassabílarall. Dagkrána má nálgast í heild sinni á vefsíðunni www.franskir-

dagar.com.

Í hnotskurn
Franskir dagar voru fyrst haldnir árið 1996. Þeir eru haldnir til að minnast veru sjómanna frá Frakklandi, einkum frá Normandie og Bretagne, við Íslandsstrendur fyrr á tímum.