Girnilegt Reyktur lundi á sumarbeði.
Girnilegt Reyktur lundi á sumarbeði.
Veisluþjónustan Einsi kaldi var stofnuð nú á vordögum af Einari Birni Árnasyni sem fæddur er og uppalinn í Eyjum. Viðurnefnið fékk Einar frá félögum sínum í kokkaskólanum en hann hefur prófað sig áfram með nýjungar í matreiðslu lunda og gefur hér gómsætar uppskriftir.

Eftir Maríu Ólafsdóttur

maria@24stundir.is

„Það má segja að ég sé alinn upp hér í Höllinni í Vestmannaeyjum þar sem ég lærði hjá Grími kokki en síðan fór ég til Reykjavíkur og kláraði samninginn á Sigga Hall og vann með skólanum á Argentína steikhús. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á matargerð en ætlaði mér þó hvorki að verða kokkur né fara á sjó þar sem ég var bæði matvandur og sjóveikur en svo fór ég snemma að starfa sem kokkur á sjó,“ segir Einar Björn. Hann byrjaði í humri hjá Adda í London 13 ára og var í fótbolta en hætti eftir annan flokk og fór þá á sjóinn þar sem hann var fljótlega gerður að kokki án þess að kunna mikið en byrjaði síðan að vinna sem bakari hjá Arnóri bakara 18 ára gamall.

Ferskasta hráefnið hverju sinni

Einar Björn segir að sér finnist gaman að koma með nýjungar og hann velti útfærslum á uppskriftum mikið fyrir sér. Í matargerðinni blandar hann saman staðbundnu hráefni eins og t.d. ferskum humri, karfa og lúðu við ítalska, franska og austurlenska sérvöru. Þá útfærir hann lundarétti á ýmsan hátt og segir að Eyjamenn séu óhræddir við að prófa slíkar nýjungar þó svo að heima við sé hefðbundið að borða hann soðinn með soðnum kartöflum og hvítri sósu. „Ég leigi eldhúsið í Höllinni í samstarfi við þá Björgvin og Helga sem leigja húsið og þar tökum við á móti hópum, meðal annars um 400 manns í mat á Lundaballinu þegar við slúttum lundatíðinni,“ segir Einar. Hann hefur ætíð mætt á þjóðhátíð og segir hana gefa gott tækifæri á að hitta gamla félaga sem þá flykkjast út í Eyjar. Hátíðahöld félaganna hefjast með golfmótinu Naked Open en Einar vill ekki gefa upp hvort mótið beri nafn með rentu.