Vigdís Matthíasdóttir fæddist í Hamarsbæli við Steingrímsfjörð 5. nóvember 1930. Hún lést á Sjúkrahúsi Akraness 16. júlí síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Ingveldur Jónsdóttir f. á Húsavík í Strandasýslu 16. maí 1902, d. 7. mars 1950, og Matthías Aðalsteinsson, f. á Heydalsá, Strandasýslu, 19. desember 1888, d. 29. janúar 1973. Alsystkini Vigdísar eru. Einar Magnús, Knútur Hafsteinn, Þuríður Aðalsteina og Sigríður Fanney og sammæðra er Hulda Lilja Sigríður Þorgeirsdóttir.
Eiginmaður Vigdísar var Lýður Sigmundsson, f. á Skriðinsenni í Strandasýslu 17. apríl 1911, d. 1994. Dóttir Vigdísar og Sveins Kristinssonar er Ingveldur Matthildur, f. 29. mars 1953, gift Guðna G. Jónssyni. Börn Vigdísar og Lýðs eru: Jóhanna, f. 1957, maður hennar er Hlynur Eggertsson, Sigmundur, f. 1960, kona hans er Þorgerður Benónýsdóttir, Ingþór f. 1963, d. 2000, og Grétar, f. 1964, d. 1993.
Vigdís og Lýður bjuggu á Hólmavík til ársins 1961, en þá fluttu þau á Akranes. Hún var lengst við fiskvinnslustörf á Akranesi.
Útför Vigdísar fer fram frá Akraneskirkju í dag og hefst athöfnin kl. 13.
Ég á svo margar myndir í huganum af ömmu Dísu. Sitjandi í eldhúsinu á Vallarbraut með kaffi að rugga sér í stólnum sínum. Ég get lokað augunum og verið þar með henni núna. Ég heyri í hljóðinu í kaffivélinni, lágri tónlist í útvarpinu og við horfum út um gluggann. Einu sinni voru alltaf hestar á túninu á móti blokkinni hennar ömmu. Ég man hvað henni fannst gaman að fylgjast með hestunum og við frændsystkinin gerðum okkur oft ferð yfir til þeirra með brauð. Síðan var líka agalega mikið sport að fara niður í kjallara í eltingaleik. Svo komum við upp lafmóð og fengum mjólk og oft nýbakaðar kleinur. Algjört Æði. Við vorum alltaf að leika saman heima hjá ömmu og afa. Það er svo magnað að hugsa um það í dag hvað hún fór létt með að halda heimilinu gangandi. Það var allt svo flæðandi. Enda var hún ekkert að tvínóna við hlutina. Ég get ekki annað en brosað þegar ég hugsa um ömmu Dísu taka slátur heima í Sigtúnum með mömmu. Ég sé hana ljóslifandi fyrir mér hræra saman blóðmör í stórum bala. Ég hafði aldrei séð annað eins átta ára gömul. Eða elda hangikjöt fyrir alla fjölskylduna á jóladag. Það voru svo skemmtileg jólaboð, allir saman að borða góðan mat og amma á þönum að sjá um að allt væri í lagi. Ég man varla eftir því að hún hafi sest niður til að borða, allavega ekki fyrr en allir voru löngu byrjaðir. Það var sko ekkert verið að drolla við að koma hlutunum í verk. Ömmu fannst líka gaman að prjóna og hún var oft búin að prjóna mörg pör af ullarsokkum og þá fékk ég stundum að velja mér eitt þegar ég kom í heimsókn. Ég man hvað mér þótti vænt um rauðu og svörtu ullarsokkana sem hún prjónaði. Það eru svo margar fallegar minningar sem ég á um ömmu. Það var svo gott að kíkja í kaffi til hennar, hún sagði alltaf „þetta gengur vel hjá þér“, sama hvað ég var að gera.
Ég er svo þakklát fyrir þessa daga sem ég átti með ömmu uppi á Akranesi áður en ég fór út. Hún var orðin mjög veik en vildi bara vera heima og við áttum ekkert að hafa neinar áhyggjur af því. Ég dáist að þessu hugrekki og æðruleysi sem hún bjó yfir. Þegar ég kvaddi hana, sagði hún við mig „Þetta verður allt í lagi Sylvía mín“.
Ég veit að þér líður vel núna amma mín, takk fyrir allar fallegu stundirnar sem við áttum saman. Ég hugsa til þín og ég hugsa til allra heima.
Þín
Sylvía.
Mig langar að minnast systur minnar Vigdísar Matthíasdóttur eða Dísu eins og hún var kölluð. Hún lést 16. júlí og jarðsett verður 25. júlí. Það var stutt á milli systkina, Knútur bróðir lést 10. júlí og jarðsettur 19. júlí. Dísa var búin að vera veik undanfarið en ég hélt að hún næði heilsu aftur, en svo var ekki.
Dísa vann alltaf mikið og hlífði sér ekki. Þau Lýður áttu saman 5 börn svo að það var nóg að gera.
Ég sakna Dísu systur minnar mjög mikið, það var mjög kært með okkur systrum. Nú veit ég að henni líður betur. Ég kveð hana með þökk í huga.
Ég vil votta börnum hennar og öðrum aðstandendum samúð mína.
Þegar raunir þjaka mig
þróttur andans dvínar
þegar ég á aðeins þig
einn með sorgir mínar.
Gef mér kærleik, gef mér trú,
gef mér skilning hér og nú.
Ljúfi drottinn lýstu mér,
svo lífsins veg ég finni
láttu ætíð ljós frá þér
ljóma í sálu minni.
(Gísli á Uppsölum.)
Ég kveð þig elsku Dísa mín, Guð geymi þig og varðveiti.
Þín systir
Þuríður.
Ég sendi öllum ættingjum og vinum innilegar samúðarkveðjur,
Ég þakka þau ár sem ég átti
þá auðnu að hafa þig hér.
Og það er svo margs að minnast,
svo margt sem um hug minn fer.
Þó þú sért horfinn úr heimi,
ég hitti þig ekki um hríð.
Þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sigurðardóttir.)
Vilhjálmur Matthíasson.
Örfá fátækleg minningarorð frá mér til þín, Dísa mín, og þökk fyrir okkar góðu kynni.
Það var aldeilis happ fyrir hann Lýð móðurbróður minn þegar hann eignaðist þig fyrir konu, hann var nú orðinn nokkuð fullorðinn og við vorum farin að halda að kallinn gengi ekki út, en þá hittust þið og hófuð sambúð í Mattabænum í Norðurfjörunni á Hólmavík og bjugguð síðar í Reykjavík og seinna á Akranesi.
Alltaf var jafn-gott að koma til ykkar, þið voruð alltaf svo dugleg, alltaf að vinna, ekki alltaf miklir fjármunir til að spila úr en því meiri hjartahlýja og vel tekið á móti öllum sem litu inn, oft kom fullt af fólki sem var á ferðinni og kom við án þess að gera boð á undan sér og þið heima í hádegishléi á virkum degi, og þá var Dísa fljót að töfra fram á einhvern dularfullan hátt mat fyrir alla á „nó tæm“, eins og sagt er, og kaffisopa á eftir, sem mig minnir að hafi verið mun bragðbetra en annað kaffi á ferðalögum.
Og ekki síst: alltaf tímakorn til að setjast niður og spjalla og fá fréttir að norðan.
Þú varst svo félagslynd og hafðir yndi af að hitta fólkið ykkar, Ég minnist margra góðra stunda með ykkur í góðra vina hópi að syngja gömlu, góðu lögin okkar með gítar og harmonikku.
En það er ekki alltaf skin í lífinu, það voru erfiðar stundir þegar drengirnir ykkar féllu frá í blóma lífsins, þeir Grétar og Ingi.
Ég og fjölskyldurnar mínar sendum innilega samúðarkveðju til ykkar Hönnu, Simma, Ingu og systranna og fjölskyldna ykkar.
Ásdís Jónsdóttir.