„Ég hef nú farið á margar þjóðhátíðir og þær eru allar alveg yndislegar,“ segir Védís Hervör Árnadóttir söngkona en ein er henni þó sérstaklega minnisstæð.

„Ég hef nú farið á margar þjóðhátíðir og þær eru allar alveg yndislegar,“ segir Védís Hervör Árnadóttir söngkona en ein er henni þó sérstaklega minnisstæð.

„Þá vorum við vinirnir úr Wake me up, sem var söngleikur á vegum Verslunarskóla Íslands, fengin til að skemmta. Við fórum því öll þarna saman í hóp og ég hef verið eitthvað um 18 ára gömul. Þetta var bara svo dásamleg helgi og það var svo margt sem maður var að fara í gegnum sem unglingur. Og allt eru þetta mjög góðir vinir mínir enn þann dag í dag. Það fylgir því mikil hlýja þessari minningu.“

Að sögn Védísar var mikið fjör og er henni minnisstæður einn strákur er varð á vegi hennar.

„Við hittum strák sem hafði verið í einhverri búningakeppni og var því í strumpabúningi. Við sáum aldrei almennilega framan í hann en það kom í ljós að hann var hinn ljúfasti drengur. Hann krafðist þess að fá að fylgja okkur heim. Þarna ferðuðumst við því á milli í vagninum með einhverjum manni í strumpabúningi og þetta hefur verið tilefni til gríns síðan þá.“

Védís segist líklega hafa farið um átta sinnum á þjóðhátíð en í ár breytti hún þó út af vananum.

„Ég fór á Goslokahátíðina í ár og hugsa að ég fari ekki á þjóðhátíð að þessu sinni. Ég þarf bara að vinna, en ætli maður kíki þá ekki á Innipúkann.“ hj