Akureyri | Stjórnklefinn af Gullfaxa er nýjasta viðbótin í myndarlegt stóð af merkum vélum í Flugsafni Íslands. Gullfaxi var fyrsta þota sem Íslendingar eignuðust en hann kom fyrst til landsins í júní árið 1967. Svanbjörn Sigurðsson, framkvæmdastjóri safnsins, er mjög ánægður með viðbótina. Hann segir þó að enn eigi eftir að gera stjórnklefann upp og setja undir hann pall.
Gullfaxi var seldur úr landi árið 1980 en þá keypti flutningafyrirtækið UPS þotuna. Vélin var eftir það notuð í farmflutningum, og hentaði vel til þess, þar sem stórar hliðardyr auðvelduðu mönnum verkin. 126 farþegar komust fyrir í sætum í Gullfaxa, en stundum var vélinni skipt í tvennt og voru þá farþegar og farmur fluttur í einni ferð.