[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
,,Því stærri því betra,“ sagði veiðimaðurinn og gerði mál með höndunum svo minnti á eins og hálfs punds urriða. ,,Hún á að vera minkur.“ Hann var að tala um Sun Ray Shadow. Sun Ray komst á spjöldin hjá okkur á flugur.

,,Því stærri því betra,“ sagði veiðimaðurinn og gerði mál með höndunum svo minnti á eins og hálfs punds urriða. ,,Hún á að vera minkur.“ Hann var að tala um Sun Ray Shadow. Sun Ray komst á spjöldin hjá okkur á flugur.is eftir veiðisumarið 2003 og birtum við grein sem hét ,,spútnikflugan Sun Ray Shadow“. Hún er miklu eldri, auðvitað, en hefur sótt verulega á hjá veiðimönnum á liðnum árum.

Ég nota hana ca. fimm sentimetra langa eða svo, aðallega sem flottúpu en einnig sem gárutúpu og þá heldur minni. Ennþá stærri eru í boxinu en ég hef nú ekki fengið á þær í ,,minksstærð“ enn, enda nota ég þær eiginlega aldrei.

Menn rífast mikið um Sun Ray, telja hana eyðileggja veiðistaði því annað hvort geri hún allt vitlaust í töku eða drepi laxinn í dróma. Sem dæmi má nefna grein á flugur.is sem var skrifuð og heitir Að sunreyja allt í klessu. Ég hef heyrt veiðimenn tala um hana eins og argasta dónaskap. Sögur af ,,löxum í losti“ eftir Sun Ray-yfirferð hafa komist á prent með viðeigandi blótsyrðum.

Sjálfur fer ég ekki mikið í lax, en hef hana alltaf með og hika ekki við að setja flottúpu undir sem fyrsta val og athuga hvort ekki kemur líf. Læt hana skára spegla og rispa. Mér reyndari laxveiðimenn vitna þvert gegn þessu og segja að maður eigi alls ekki að kasta henni í byrjun yfirferðar, og reyna hana ekki fyrr en öllu er lokið, sem og þá aðeins sem örvæntingarfullt lokabragð. Í nafni hlutlægrar blaðamennsku er því báðum viðhorfum haldið til haga. En þá verðum við að muna að útgáfurnar eru margar. Allt frá 20 cm löngum ,,minkum“ með keiluhaus niður í hálfrar tommu gárutúpur. Það er því hægt að ,,sunreyja“ fínlega. En um þetta má lesa í fræðigreinum á flugur.is!

Önnur fluga sem margir sverja og sárt við leggja að sé hin endanlega fluga er ,,Þýskaland“, Snældan hans Gríms. Þetta er túpa og margir leiðsögumenn heimta að nýgræðingar á bakkanum setji hana og ekkert annað undir og hafi hana á allan daginn. Hvílík veiðimennska. Útgáfurnar af Snældu Gríms eru margar, en þessi er með hala sem er í þýsku fánalitunum, og þaðan kemur nafnið. Í Rangánum er hún vinsæl, ja, og hvar ekki þar sem stórveiðimenn koma saman? Það sama gildir um hana og Sun Ray: Eftir að Snældan fer yfir þýðir lítið að reyna annað segja margir. Ekki er það nú víst. Hitt þykir drengilegra að nálgast veiðistað með ákveðinni virðingu og hertækni í huga. Einfalda reglan er þessi: Byrja á yfirborðsflugu, svo sem gárutúpu af minni gerð. Fara næst í örtúpu og prófa hraðan inndrátt, svo í millistóra flugu og leita betur, þyngja kannski með keiluhaus framan á flugunni og enda loks á stórri túpu. Og þá er ekki vitlaust að veðja á Snældu.