HÆSTIRÉTTUR hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að karlmaður, sem handtekinn var í vikunni ásamt þremur öðrum mönnum í Garðabæ, sæti gæsluvarðhaldi til 28. júlí. Talið er að maðurinn hafi ásamt félaga sínum framið innbrot í þrjú hús í Hafnarfirði og Garðabæ sl. mánudag.
Fram kemur í úrskurði héraðsdóms að lögreglan hafi stöðvað bíl í Garðabæ sem í voru fjórir karlmenn, sl. mánudagskvöld. Í bílnum fannst myndavél, sem stolið var úr húsi í Garðabæ fyrr um daginn, og hálsmen sem stolið var úr húsi í Hafnarfirði. Þá fannst einnig kúbein í bílnum og hefur lögregla borið það saman við verksummerki þar sem brotist var inn. Samanburðurinn leiddi í ljós að samskonar kúbein, bæði hvað varðar lit og lögun, var notað við að spenna upp glugga á þeim stöðum þar sem brotist var inn. Einnig er kúbeinið talið hafa verið notað við að spenna upp hurðir inni í viðkomandi húsum.
Tveimur mönnum var sleppt eftir yfirheyrslur en tveir voru úrskurðaðir í viku gæsluvarðhald. Annar kærði úrskurðinn til Hæstaréttar.