Eftir Bjarna Ólafsson bjarni@mbl.is ÚTLITIÐ fyrir evrópskan efnahag er ekki bjart, ef marka má fjölda nýrra tölulegra upplýsinga um efnahagsástandið og viðhorf almennings og athafnafólks til framtíðarinnar.

Eftir Bjarna Ólafsson

bjarni@mbl.is

ÚTLITIÐ fyrir evrópskan efnahag er ekki bjart, ef marka má fjölda nýrra tölulegra upplýsinga um efnahagsástandið og viðhorf almennings og athafnafólks til framtíðarinnar.

Framleiðni í Evrópu í júní var undir væntingum og væntingarvísitala innkaupastjóra stærstu fyrirtækja evrópu lækkað úr 49,1 í maí í 48,3 í júní. Þá lækkaði væntingavísitala þýskra fyrirtækjastjórnenda á sama tíma.Í frétt Forbes segir að fyrirtæki séu svartsýnari á efnahagsástandið nú og yfir næsta hálfa árið en þau voru áður.

Hrun í Finnlandi

Þá bárust í gær fréttir af því að smásala í Bretlandi hefði dregist saman um 3,9% frá fyrri mánuði, en það er mesta lækkun í einum mánuði frá upphafi mælinga.

Þessar óskemmtilegu fréttir höfðu eðlilega áhrif á hlutabréfamarkaði í Evrópu í gær. Breska FTSE-vísitalan lækkaði um 1,61%, þýska DAX um 1,46% og franska CAC-vísitalan um 1,38%. Lækkanirnar voru jafnvel enn meiri á Norðurlöndunum, þar sem finnska hlutabréfavísitalan féll um 4,46% í gær. Mörg stór pappírs- og stálfyrirtæki lækkuðu mikið þar í landi, en mörg fyrirtæki birtu í gær annaðhvort afkomuviðvaranir eða mun verri uppgjör fyrir annan ársfjórðung en gert hafði verið ráð fyrir. Þá lækkaði sænska vísitalan um 2,64% og samnorræna OMX-vísitalan um 1,95%.