Ástandi raflagna og rafbúnaðar á tjaldstæðum víða um land er verulega ábótavant. Könnun Neytendastofu, sem náði til 27 tjaldstæða, leiddi í ljós að oftast voru gerðar athugasemdir við merkingu búnaðar í rafmagnstöflum, eða í 78 prósentum tilfella. Athugasemdir voru gerðar við almennt ástand rafmagnstaflna í 52 prósentum tilfella og við frágang tauga í rafmagnstöflum í 48 prósentum tilfella.
Jóhann Ólafsson, sviðsstjóri öryggissviðs hjá Neytendastofu, segir mjög brýnt að þeir sem reka tjaldstæðin lagfæri rafbúnað sinn, þar sem þeir beri ábygðina ef einhver slasast.
Jóhann segir að Neytendastofa geta beitt ákveðnum úrræðum gagnvart þeim tjaldstæðum sem hafa fengið athugasemdir. „Við getum beitt dagsektum eða látið loka fyrir raflagnirnar. Það er gert í undantekningartilvikum, þar sem mikil hætta er.“
Sambærileg rannsókn var gerð fyrir þremur árum og fengu þrettán tjaldstæði, sem þá fengu athugasemdir vegna ástands rafbúnaðar, aftur athugasemdir. atlii@24stundir.is