Aðdáendur Barack Obama heilsar fólki sem hlýtt hafði á ræðu hans við Sigursúluna í Berlín í gær. Fólkið kom víða að, Þjóðverjar, Bandaríkjamenn og fólk frá öðrum Evrópulöndum var í hópnum.
Aðdáendur Barack Obama heilsar fólki sem hlýtt hafði á ræðu hans við Sigursúluna í Berlín í gær. Fólkið kom víða að, Þjóðverjar, Bandaríkjamenn og fólk frá öðrum Evrópulöndum var í hópnum. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Kristján Jónsson og Sigrúnu Hlín Sigurðardóttur BARACK Obama, forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins bandaríska, hvatti í gær til einingar þjóðanna beggja vegna Atlantshafsins.

Eftir Kristján Jónsson og

Sigrúnu Hlín Sigurðardóttur

BARACK Obama, forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins bandaríska, hvatti í gær til einingar þjóðanna beggja vegna Atlantshafsins. Bandaríkjamenn ættu hvergi betri bandamenn en í Evrópu og þótt komið hefði til deilna og aftur myndu verða deilur síðar myndu byrðar sem fylgdu því að vera borgarar allrar jarðarinnar halda áfram að binda þjóðirnar saman.

Hann sagði enga þjóð, sama hve stór og voldug hún væri, geta sigrast af eigin rammleik á nýjum ógnum eins og alþjóðlegri hryðjuverkavá eða hlýnun loftslags. Obama heldur í dag til Frakklands og síðan til Bretlands á morgun. En í gær var hann í Þýskalandi, Berlínarbúar og ferðamenn í borginni tóku honum ákaflega vel, og voru umferðarteppur til að mynda tilfinnanlegar um alla borg.

Haft var á orði að viðbrögðin líktust því helst að rokkstjarna væri á ferð en ekki forsetaefni í ríki handan við Atlantshafið. Vegfarendur héldu á lofti skiltum með nafni Obama eða hinum frægu áhrínsorðum hans: „Yes We Can.“ Þá sást einnig til gárunga með skilti með áletrunum á borð við „Obama sem kanslara.“

Fyrri hluta dags átti Obama fundi með Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, Frank-Walter Steinmeier utanríkisráðherra og Klaus Wowereit, borgarstjóra Berlínar. Um 1.000 lögreglumenn voru í viðbragðsstöðu seinnipartinn, en klukkan fjögur að staðartíma tók fólk að streyma að svæðinu hjá Sigursúlunni í skemmtigarðinum Tiergarten, þar sem Obama hugðist flytja ræðu sína klukkan sjö.

Þegar Obama loksins hóf upp raust sína höfðu safnast saman um 200.000 manns í garðinum. Megininntak ræðunnar var á þá leið að þjóðir heims ættu að sameinast í að leggja meðbræðrum sínum lið. Rífa yrði niður múra á milli gamalla bandamanna beggja vegna hafsins, milli ríkra þjóða og fátækra, milli kynþátta og ættbálka, milli innfæddra og innflytjenda, kristinna, múslíma og gyðinga.

Snúi bökum saman

„Í Evrópu eru allt of margir nú þeirrar skoðunar að Bandaríkin eigi fremur nokkra sök á því sem miður fer í heiminum en að þau séu afl sem geti gagnast við að gera hann aftur betri,“ sagði Obama. „Í Bandaríkjunum gera sumir lítið úr þætti Evrópu í að tryggja öryggi okkar og framtíð, neita að sá þáttur sé mikilvægur. Hvorugt sjónarmiðið er í samræmi við sannleikann – þann að Evrópumenn axla nú stærri byrðar og meiri ábyrgð á hættusvæðum í heiminum, að á sama hátt og herstöðvar sem Bandaríkjamenn reistu á nýliðinni öld koma enn að gagni við að tryggja öryggi þessa meginlands færir þjóð okkar enn miklar fórnir fyrir frelsið um allan heim.“

Obama lagði áherslu á að Evrópa og Bandaríkin sneru bökum saman svo sigrast mætti á hryðjuverkum og uppræta öfgastefnuna sem þar byggi að baki. Þar vitnaði hann í söguna og minntist á Berlínarloftbrúna eftir seinni heimsstyrjöld og samstarf vestrænna þjóða sem leiddi til sigurs á Sovétmönnum í kalda stríðinu: „Þjóðir heims – lítið á Berlín! Lítið á Berlín, þar sem Þjóðverjar og Bandaríkjamenn lærðu að vinna saman og treysta hvorir öðrum innan þriggja ára frá því að þeir áttust við á vígvellinum.“

Ræðu hans var tekið með kostum og kynjum en þó misjafnlega eftir efninu. Julia Neisert, sem vinnur við almannatengsl, sagði nánast hafa slegið þögn á mannfjöldann þegar Obama ræddi um nauðsyn þess að senda fleiri hermenn til Afganistans til að sigra Talíbana. Þjóðverjar hafa mörg þúsund hermenn í Afganistan en neita að senda þá til suðurhéraðanna þar sem mestu átökin fara fram og Bandaríkjamenn bera hitann og þungann af aðgerðunum.

„Hann sagði dálítið um allt...frá ástandinu í Darfúr til útbreiðslu kjarnavopna til loftslagsbreytinga,“ sagði hún. „Því óljósari sem hann var í tali þeim mun öflugri urðu fagnaðarlætin.“

„Það var ótrúleg stemning á svæðinu“

SVAVAR Knútur Kristinsson, tónlistarmaður, er á tónleikaferðalagi í Berlín og var viðstaddur ræðu Obama.

,,Það var ótrúleg stemning á svæðinu, ekki ósvipuð því og rokkstjarna væri komin á staðinn,“ sagði Svavar Knútur. „Hér voru allra þjóða kvikindi og sennilega meira af útlendingum en Þjóðverjum. Fólk var að koma hingað sérstaklega frá Bandaríkjunum og öðrum Evrópulöndum, bara til þess að sjá hann. Fólk sagði við mig: „Ég vil geta sagt barnabörnunum að ég hafi verið hér“.“

Svavar sagði meirihluta viðstaddra hafa verið ungt fólk. Víða mátti sjá skilti með nafni Obama og setningum eins og „Barack'n roll“. ,,Alls staðar mátti sjá bjórsölustanda, sölumenn með ýmsan varning eins og stuttermaboli með mynd Obama, derhúfur og annan varning. Menn bera líka svo miklar vonir til hans,“ sagði Svavar.

Í hnotskurn
» John F. Kennedy Bandaríkjaforseti flutti fræga ræðu í Vestur-Berlín 1963. Borgin var þá umlukt múrum a-þýskra stjórnvalda. Kennedy gagnrýndi þá sem ekki skildu hvað deilt væri um í kalda stríðinu. „Látum þá koma til Berlínar,“ sagði hann.
» Í lokin sagði Kennedy að allir frjálsir menn, hvar sem þeir byggju, væru í reynd Berlínarbúar. „Þess vegna er ég, sem frjáls maður, hreykinn af því að segja: Ich bin ein Berliner.“