„Brynja, ég elsssk-ha þig...“ tautaði Bubbi fyrir munni sér á tónleikaplötunni Ég er árið 1991 og skildi þar með við hörðustu aðdáendur sína á togurunum sem fannst slíkt væl bara hallærislegt. Mér fannst það líka.

„Brynja, ég elsssk-ha þig...“ tautaði Bubbi fyrir munni sér á tónleikaplötunni Ég er árið 1991 og skildi þar með við hörðustu aðdáendur sína á togurunum sem fannst slíkt væl bara hallærislegt. Mér fannst það líka. Þá var ég hrokafullur unglingur og var á þeirri skoðun að Kaninn væri löngu búinn að rústa meiningu þessara orða með ofnotkun þeirra í klisjulegum þakkarræðum eða bara í tilgerðarlegum samræðum við afgreiðslumanninn á McDonalds.

Það var mikið grín gert að þessum orðum Bubba í mínum vinahópi, enda fannst okkur það ömurlegt að þessi gallharða týpa er hafði fylgt okkur í gegnum alla æsku okkar væri að verða væmið gamalmenni. Við kusum frekar ímyndina af unga hrokafulla Bubba í staðinn fyrir manneskjuna sjálfa.

Eftir þessu lifði ég allt of lengi. Fann svo sjálfan mig einangraðan, nær vinalausan og búinn að brjóta alla ást utan af mér með eigin sjálfselsku. Áttaði mig þá á því að ég var orðinn 27 ára gamall og hafði aldrei sagt móður minni að ég elskaði hana. Þegar ég svo loksins fann kjark til þess að hósta þessu upp úr mér stífnaði hún öll upp. Þá áttaði ég mig á því að við höfðum farið í gegnum allan þennan tíma án þess að gefa hvort öðru staðfestingu á tilfinningum okkar. Það er glatað að halda að suma hluti þurfi maður ekkert að segja. Hvor er meiri töffari, maður sem þorir að segja þessi sterku orð við þá sem hann elskar og meinar þau, eða maður sem kæfir ástina með því að þegja hana í hel?