Fastur liður á þjóðhátíð er þjóðhátíðarlagið en hið fyrsta var samið árið 1933. Frá árinu 1961 hefur þjóðhátíðarlag verið samið á hverju ári og sungið yfir hátíðina alla.

Fastur liður á þjóðhátíð er þjóðhátíðarlagið en hið fyrsta var samið árið 1933. Frá árinu 1961 hefur þjóðhátíðarlag verið samið á hverju ári og sungið yfir hátíðina alla.

Árlegt frá 1961

Setjumst að sumbli hét fyrsta þjóðhátíðarlagið eftir Oddgeir Kristjánsson við texta Árna úr Eyjum. „Áður höfðu verið samin þjóðhátíðarljóð en ekki endilega lög við. Oddgeir samdi til ársins 1965 þó það hafi ekki alltaf verið árlegt en frá árinu 1961 hefur þjóðhátíðarlagið verið árlegt. Stundum hefur verið haldin samkeppni þar sem fólki hefur gefist kostur á að senda lag og texta en í seinni tíð hefur verið meira um að ákveðnir höfundar séu fengnir til verksins,“ segir Hafsteinn Guðfinnsson sem ber titilinn tónlistarstjóri Átthagafélags Vestmannaeyinga. Hafsteinn hefur í mörg ár safnað saman Eyjalögum og reynt að læra þau sem flest en kór félagsins hefur að markmiði að halda lögunum lifandi og hefur nú hist í þrjá vetur og sungið saman tvisvar í mánuði. Yfirleitt mæta um 30 manns á hverja æfingu en 60 manns eru á skrá og hefur Hafsteinn safnað saman í sönghefti um 90 lögum þar sem annað hvort textinn, lagið eða hvort tveggja er eftir Eyjafólk.

Misjafnlega mikið sumbl

„Eins og flestir sem alast upp í Vestmannaeyjum er ég mikill Eyjamaður en það er oft talað um að fólk úr Eyjum og reyndar bara úr öllum eyjum sé svolítið sérstakt. Ég hugsa að fólkið sem bjó í Eyjum áður fyrr hafi verið meira einangrað og þurft að búa til það sem það vildi skemmta sér við og þannig hafi þróast þar þessi söngmenning að einhverju leyti,“ segir Hafsteinn.

Ég veit þú kemur

Sitt uppáhaldsþjóðhátíðarlag segir Hafsteinn vera Ég veit þú kemur frá árinu 1961 en það lag eigi sér stað í hjörtum flestra Íslendinga svo og Ágústnótt. Mikið er sungið í tjöldunum í hópi Hafsteins á þjóðhátíð og nær stemningin hámarki í brekkusöngnum þar sem gömul og ný Eyjalög eru sungin í bland.

maria@24stundir.is