Bjarni Harðarson
Bjarni Harðarson
Eftir Bjarna Harðarson: "Fámenn stétt nýríkra auðmanna með hjálp banka hefur þar tekið sjóðina, eigið fé fyrirtækjanna, út úr þeim en sett skuldir í staðinn..."

Í ÞÝSKU ævintýri segir frá úlfi sem sofnar sæll eftir vel heppnaða máltíð en verður fyrir því að veiðimaður skiptir út mannaketinu fyrir grjót. Bjargar um leið heimasætu sögunnar og ömmu hennar. Þegar rándýrið vaknar eru yfir því þyngsli. Það skjögrar að næsta brunni eftir svaladrykk en hrapar þar ofan í og sekkur til botns. Er úlfur sá þar með úr sögunni og engum harmdauði.

Öðru máli gegnir um íslensk fyrirtæki sem hafa líkt og úlfurinn verið skorin upp á undanförnum árum, ekki einu sinni heldur oft. Að því hefur staðið fámenn stétt nýríkra auðmanna sem með hjálp banka og annarra fjármálafyrirtækja hafa þar tekið sjóðina, eigið fé fyrirtækjanna, út úr þeim en sett skuldir í staðinn. Skuldir þessar eru fyrirtækjunum þungar, þau skjögra nú um og einhver munu hrapa til dauðs líkt og úlfurinn í Rauðhettusögunni.

En ólíku er hér saman að jafna. Úlfurinn er í sögunni með illa fengna matarfylli. Íslensku fyrirtækin hafa aftur á móti fyllt sig með sjóðum í margra áratuga ólgusjó viðskiptalífsins. Lagt til þess svita þjóðarinnar og sjóðir þessir voru með vissum hætti eign þjóðarinnar allrar. Sætir eðlilega nokkurri furðu hvernig hervirki sem þetta getur átt sér stað í dagsbirtu í íslensku efnahagslífi.

Löglegt en siðlaust

Fórnarlömb þessara aðgerða hinna meintu auðmanna voru við upphaf leiks verðmetin út frá vexti og viðgangi á síðustu öld. Með miklu og góðu framboði af lánsfé á alþjóðlegum mörkuðum var vöskum og duglegum fjármálamönnum lánað fé til kaupa á viðkomandi fyrirtæki. Í þenslunni undanfarin ár óx fyrirtækið að verðmæti og innan fárra ára var fyrirtækið sem keypt var fyrir 90% lánsfé allt í einu talið hafa verulegt eiginfjárhlutfall. Þá var leikurinn endurtekinn. Aftur var útvegað lánsfé, nú fyrir allri kaupupphæðinni og enn öðru félagi selt fyrirtækið eða öll hlutabréf gamla félagsins. Andvirðið notað til áframhaldandi hlutafjárkaupa og nú kom útrásin til sögunnar.

Peningar flæddu úr landi og við galopna lánamöguleika gat sá sem átti milljarð fjárfest fyrir 10 milljarða á alþjóðlegum mörkuðum. Eftir stóð gamla fyrirtækið sem gat verið flugfélag, niðurlagsverksmiðja, flutningafyrirtæki eða verslun en nú með gríðarlega skuldastöðu sem þó taldist í ársreikningum viðundandi. Allt vegna þess að verðmæti sama fyrirtækis hafði verið fært jafnt og þétt upp á við á mörkuðum sem stjórnað var af fámennum hópi í fámennu landi.

Við leik þennan réð mestu hið síðastnefnda. Fámennið og samtrygging á markaði milli fáeinna útvalinna auðmanna sem jafnframt voru stórir hluthafar í bönkum landsmanna. Með innbyrðis viðskiptum milli manna sem áttu margskonar sameiginlega hagsmuni tókst að mæla upp verðmæti einstakra hlutabréfa langt umfram það sem raunhæft getur talist. Þannig var við upphaf leiks miðað við að fyrirtækin borguðu sig upp á 5 árum en í sumum tilvikum komið upp í 40 ár þegar dansinn stóð sem hæst. Í einu tilviki voru hlutabréfakaup skuldsett fyrir fjörutíuföldu nafnverði í félagi sem nú er selt á genginu sex. Veðin bak við þau hlutabréfalán eru í dag harla rýr.

Óskabörn á brauðfótum

Fyrirtæki sem fyrir áratug var skuldlítið metið á 10 milljarða skuldar nú 20 milljarða og er í ársreikningum metið á 25 milljarða. Vandamálið er að nú þegar syrtir að fer gamla matið að vera nær lagi en það nýja. Fyrirtækið sem við fyrri dýfur í íslensku efnahagslífi stóð af sér brotsjói með sterkri eiginfjárstöðu berst nú í bökkum. Ekki þarf lengi að lesa viðskiptablöð á árinu 2008 til að sjá að mörg af óskabörnum hins íslenska atvinnulífs eru nú í þessum flokki. Þessi óskabörn voru brjóstvörn okkar í fyrri efnahagsþrengingum en eru það ekki lengur.

Einhverjir munu halda því fram að umræddir athafnamenn hafi haft fullt frelsi til að gera það sem gert var. Þar er samt ástæða til að staldra við. Umrædd fyrirtæki nutu virðingar meðal þjóðarinnar sem traustar stoðir efnahagslífsins. Sum þeirra höfðu orðið til með almennum samskotum í formi hlutafjár eða stofnfjárframlaga.

Mörg þessara félaga voru um skeið á almennum markaði og einstaklingar sem hvergi komu nærri ráðagerðum um að taka eigið fé út úr fyrirtækjunum töpuðu þannig sparifé við kaldrifjað brask fárra manna.

Þegar við bætist svo það samspil sem hér var leikið milli hinna stóru hluthafa, banka og fjármálastofnana fer réttur hákarlanna að verða vafasamur bæði í lögfræðilegu og siðferðislegu tilliti. Allt þetta samspil kallar raunar á rannsókn og yfirferð mála þar sem allt er dregið undan steini.

Séreignarréttur í atvinnulífi gefur engum rétt til að hundsa almennar reglur siðgæðis og viðskipta. Atvinnulíf landsmanna mun allt súpa seyðið af þeim glannaskap og græðgi sem einkennt hefur hlutafjárbrask fámennrar klíku fjáraflamanna. Þannig hafa fáir menn vegið að þeirri sameign sem atvinnulíf og hagkerfið er þjóðinni allri. Þeir aðilar sem koma nú heim í heiðardalinn eftir að hafa tapað milljörðum eru fæstir borgunarmenn fyrir því tapi. Það er þjóðin öll sem borgar hér brúsann, beint með keðjuverkan viðskiptalífsins. Óbeint með versnandi skuldatryggingaálagi ríkis og viðskiptalífs í landinu.

Afsökun ytri skilyrða

Nú er auðvitað hægt að halda því fram að ef ekki hefði komið til alþjóðleg fjármálakreppa í heiminum hefði aldrei farið jafn illa og nú horfir í íslensku viðskiptalífi. En það er fráleitt að ætla hinum nýríku viðskiptajöfrum þann barnaskap að halda að þenslan héldi áfram til eilífðarnóns. Lögmál hins kapítalíska hagkerfis eru einmitt bylgjuhreyfingar upp og niður.

Og þó svo að vitaskuld sé hægt að benda á lítilsháttar hagstjórnarmistök undanfarin ár koma þau siðleysi viðskiptalífsins harla lítið við. Ef einhvers staðar er hægt að skella skuldinni á stjórnvöld er það helst í vaxtastefnu Seðlabankans og því að eftirlit með fjármálastofnunum í landinu hefur verið takmarkað. Þar af hljóta stjórnvöld að draga nokkurn lærdóm.

Hinir nýríku munu fæstir draga af málum mikinn lærdóm enda leikur þeirra gerður með fullkominni meðvitund. Með því að hola fyrirtækin að innan og setja níðþungar skuldir inn í stað eiginfjár hafa einstakir menn hagnast ótæpilega og eiga margir sitt á þurru landi erlendra reikninga. Aðrir hafa náð að tapa í gambli erlendra hlutafjárviðskipta – en þeir töpuðu þar peningum sem fengnir voru fyrirhafnarlítið og án persónulegra skuldbindinga.

Endurmat frjálshyggjunnar

Vandamál þau sem hér eru rakin einskorðast ekki við Ísland þó að ljóst sé að í fáum hagkerfum vestrænum hafi verið jafn langt gengið og hér á landi. Hér er til dæmis mikill munur á Íslandi og hinum EES-löndunum tveimur, Noregi og Liechtenstein. Ofurskuldsetning er vandamál víða í ESB og einnig í bandarísku viðskiptalífi.

Hér að framan er nefnt að ástandið kalli á virkara fjármálaeftirlit, rannsókn á því sem gerst hefur og síðast en ekki síst endurskoðun á vaxtastefnu Seðlabanka Íslands sem hefur beinlínis stuðlað að útrásinni með áralöngu ofurgengi íslensku krónunnar.

En hin alþjóðlega fjármálakreppa er líka skipbrot þeirrar óheftu frjálshyggju sem riðið hefur húsum um allan heim um langt árabil. Hópur breskra hagfræðinga boðar nú endurmat í anda New Deal-stefnu Roosevelts. Það er mikilvægt að við Íslendingar fylgjumst vel með þeirri umræðu og hætt verði að horfa til patentlausna í hagkerfinu, hvort sem það eru Friedman-, Greenpeace- eða ESB-hillingar sem hinir trúgjörnu vilja veifa.

Höfundur er alþingismaður.

Höf.: Bjarna Harðarson