— Morgunblaðið/Frikki
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Birgi Örn Steinarsson biggi@24stundir.is Rapparinn sem dró Sölva Blöndal úr sjálfskipaðri hipphopp-útlegð sinni heitir Ragnar Tómas Hallgrímsson og er rólyndispiltur um tvítugt er býr í Hafnafirði.

Eftir Birgi Örn Steinarsson

biggi@24stundir.is

Rapparinn sem dró Sölva Blöndal úr sjálfskipaðri hipphopp-útlegð sinni heitir Ragnar Tómas Hallgrímsson og er rólyndispiltur um tvítugt er býr í Hafnafirði. Hann var 15 ára gamall þegar Quarashi skaust fram á sjónarsviðið og kynntist Sölva fyrst þegar hann sótti hljóðmannanámskeið er íslenski rappmógúllinn stóð fyrir í félagsmiðstöðinni Frostaskjóli.

Í síðustu viku kláruðu þeir félagar fyrsta lagið sitt saman en það heitir Do Your Thing og er komið á netið og von er á því í útvarpsspilun bráðlega.

„Þetta gerðist í gegnum MySpace. Ég sendi honum póst og spurði hvort hann hefði áhuga á því að gera eitthvað með mér,“ segir Ragnar sem viðurkennir að hafa verið aðdáandi í lengri tíma. „Ég bjó í fimm ár í Flórída og tvö ár í Kaliforníu og einhvern tímann á þeim tíma var lagið þeirra Stick it Up í efsta sæti á vinsældalistanum og þá mundi ég eftir Sölva úr félagsmiðstöðinni.“

Vera hans í Bandaríkjunum skýrir hversu vel honum tekst til með að rappa á ensku. Það er ekki hægt að heyra að þarna sé Íslendingur á ferð, hvort sem fólki líkar það betur eða verr.

„Ég kem eflaust aldrei til með að rappa á íslensku. Ég bjó úti, var í enskum skóla og er núna að læra ensku í háskólanum. Ég lít á ensku sem mitt fyrsta mál. Íslenskan mín er alls ekki góð miðað við enskuna.“

Pottþétt viðmót

Sölvi fær ítrekað beiðnir frá íslenskum röppurum sem langar til þess að vinna með honum. En hann hefur þó ekki freistast, fyrr en nú. „Hann er með þeim bestu sem ég hef heyrt í og hefur mjög svalt viðmót,“ segir Sölvi um Ragnar. „Hann er góður náungi og ég vil vinna með svoleiðis gæjum. Við eigum pottþétt eftir að gera meira saman.“

Frá því að Quarashi hætti fyrir um þremur árum, hefur Sölvi ekki snert við hipphoppi. Hann skellti sér í hagfræði og starfar nú hjá greiningardeild Kaupþings. Nýja lagið, sem m.a. skartar Kalla úr Baggalút í bakröddum, er hægt að heyra á síðunni myspace.com/crowinthestorm.