AÐALHEIÐUR María Vigfúsdóttir úr Breiðabliki náði næstbesta árangri Íslendings frá upphafi í sleggjukasti kvenna í fyrrakvöld og Óðinn Björn Þorsteinsson úr FH varð sá sjötti frá upphafi til að kasta kringlu yfir 60 metra. Bæði afrekin unnust á Coca-cola-móti FH-inga í Kaplakrika.
Aðalheiður kastaði 49,85 metra og var aðeins 12 sentimetrum frá Íslandsmeti Söndru Pétursdóttur úr ÍR, en hún bætti eigin árangur um 16 sentimetra. Það var þágildandi Íslandsmet, 49,69 metrar, en Sandra bætti það 3. júlí.
Þriðja á afrekaskránni er Kristbjörg Helga Ingvarsdóttir úr FH sem kastaði 49,82 metra í síðustu viku.
Óðinn kastaði 60.29 metra en hafði áður best kastað kringlunni 59,11 metra og bætti sig því umtalsvert. Það nægði þó ekki til að ná lágmarkinu fyrir Ólympíuleikana, sem er 62,50 metrar, en frestur til að ná því er til 30. júlí.
Óðinn Björn þarf að bæta sig um tæplega þrjá metra til að komast enn ofar á listanum yfir bestu kringlukastarana. Vésteinn Hafsteinsson á Íslandsmetið, 67,64 metra, sem hann setti á Selfossi árið 1989. Erlendur Valdimarsson kastaði lengst 64,32 metra, Óskar Jakobsson, föðurbróðir Óðins, kastaði 63,24 metra, Eggert Bogason 63,18 metra og Magnús Aron Hallgrímsson kastaði 63.09 metra árið 2000. vs@mbl.is