MIKIÐ hefur verið að gera hjá björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar á hálendinu undanfarið. Breskir ferðamenn kölluðu eftir aðstoð í fyrrinótt. Einn úr hópnum hafði slasast við göngu í Brekknafjöllum og var talið að hann væri fótbrotinn.

MIKIÐ hefur verið að gera hjá björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar á hálendinu undanfarið. Breskir ferðamenn kölluðu eftir aðstoð í fyrrinótt. Einn úr hópnum hafði slasast við göngu í Brekknafjöllum og var talið að hann væri fótbrotinn. Björgunarfélag Akraness sem er á Hveravöllum þessa vikuna var kallað út og fór á staðinn ásamt lögreglu frá Selfossi. Björgunarsveitarmenn fundu ferðamennina eftir talsverða leit á svæðinu klukkan rúmlega sex í gærmorgun. Þar sem aðstaðan var erfið og mikill bratti á vettvangi var þyrla kölluð til. Maðurinn var fluttur í sjúkrahús.

Björgunarsveitin Vopni sem er í Dreka við Öskju var kölluð út í fyrrakvöld þar sem ferðamaður missti meðvitund vegna sykursýkisfalls og var ekki með þau lyf sem til þurfti en hann var í tjaldi við Kverkfjöll. Hlúð var að manninum á meðan beðið var eftir þyrlu Gæslunnar og lækni. Maðurinn var svo fluttur í sjúkrahús.

Björgunarsveitirnar Gerpir og Ársæll hafa einnig verið fólki til aðstoðar. Varlega áætlað hafa um 150 beiðnir um aðstoð borist björgunarsveitunum. Það gerir tvær á dag hjá hverri sveit sl. fjórar vikur.