Heimabakað Jakobína Elsa Ragnarsdóttir selur kaffi og brauð í kaffihúsi sínu á syðsta býli landsins, Görðum í Reynishverfi. Kaffibrauðið er allt heimabakað. Jakobína bakar allan veturinn og svo á kvöldin á sumrin.
Heimabakað Jakobína Elsa Ragnarsdóttir selur kaffi og brauð í kaffihúsi sínu á syðsta býli landsins, Görðum í Reynishverfi. Kaffibrauðið er allt heimabakað. Jakobína bakar allan veturinn og svo á kvöldin á sumrin. — Morgunblaðið/Jónas Erlendsson
Eftir Helga Bjarnason helgi@mbl.is Mýrdalur | „Ég hef bara opið þegar veðrið er gott.

Eftir Helga Bjarnason

helgi@mbl.is

Mýrdalur | „Ég hef bara opið þegar veðrið er gott. Það er ekki aðstaða fyrir fólkið þegar rignir og veður er vont,“ segir Jakobína Elsa Ragnarsdóttir á Görðum í Reynishverfi sem rekur syðsta kaffihús landsins og væntanlega það minnsta. Hún bakar kaffibrauðið sjálf.

Jakobína er ekkja og býr í Görðum með syni sínum, Ragnari Indriðasyni. Þau stunda sauðfjárrækt og voru einnig með töluverða gulrófnarækt um tíma. „Ég hætti með gulrófurnar og ákvað að gera eitthvað í staðinn. Fólk hefur sest hér í brekkuna og drukkið kaffi og mér fannst tilvalið að setja upp greiðasölu,“ segir Jakobína.

Garðar eru syðsta býli landsins og örstutt er í Reynisfjöru sem er fjölsóttur viðkomustaður ferðafólks. Kaffihúsið sem hún byggði er þó það lítið að gestir geta ekki sest inni en borð og stólar eru úti á veröndinni. „Fólki finnst spennandi að koma upp úr fjörunni og fá sér kaffisopa. Margir kaupa sér líka veitingar og taka með sem nesti,“ segir Jakobína.

Hún bakar mest af kaffibrauðinu sjálf en viðurkennir að stundum hafi hún ekki við og verði að kaupa eina og eina tegund til að bæta við. Jakobína notar veturinn til að baka en þegar birgðirnar eru þrotnar, eins og nú er, notar hún kvöldin til að baka og smyrja brauð.

Marmarakakan er vinsælust í Kaffihúsinu í Görðum en hjónabandssæla og flatbrauð sópast einnig út. Hún bakar flatkökurnar sjálf og hangikjötið er einnig afurð Garðabúsins, reykt af Ragnari syni hennar. Á boðstólum er einnig brauð með reyktri bleikju sem þau veiða í Dyrhólaósi og láta reykja hjá Fagradalsbleikju.

Kaffihúsið í Görðum var opnað í fyrra. Jakobína segir að viðskiptin hafi gengið ágætlega í júlí. Fólk sé farið að átta sig á þessari þjónustu. Hún er að athuga möguleikana á því að stækka húsið, til að gestir getið notið veitinganna inni, þegar rignir. „Annars finnst mér fólk hafa gaman af því að sitja úti, í góðu veðri, og njóta útsýnisins,“ bætir hún við. Útsýnið er ekki amalegt, sjálf Dyrhólaey blasir við hinum megin við ósinn.