Eftir Guðmund Hilmarsson gummih@mbl.is VARAMAÐURINN Magnús Páll Gunnarsson skaut Breiðabliki í undanúrslit Visa-bikarsins þegar hann skoraði sigurmarkið gegn Keflvíkingum átta mínútum fyrir leikslok á Kópavogsvelli í gærkvöld.

Eftir Guðmund Hilmarsson

gummih@mbl.is

VARAMAÐURINN Magnús Páll Gunnarsson skaut Breiðabliki í undanúrslit Visa-bikarsins þegar hann skoraði sigurmarkið gegn Keflvíkingum átta mínútum fyrir leikslok á Kópavogsvelli í gærkvöld. Blikar fögnuðu sigri, 3:2, unnu þar með fimmta sigur sinn í röð og endurtóku leikinn frá því á síðustu leiktíð þegar þeir lögðu Keflvíkinga í átta liða úrslitunum.„Það var ekkert annað að gera en reyna að setja boltann í netið,“ sagði Magnús Páll við Morgunblaðið eftir leikinn, en Magnús sýndi fádæma yfirvegun þegar hann skoraði framhjá Ómari Jóhannssyni, markverði Keflvíkinga, eftir sendingu frá Marel Baldvinssyni. „Það þýðir ekkert að vera æstur í færunum en það var voðalega sætt að sjá boltann í netinu. Mér fannst boltinn ekki liggja nógu vel fyrir mér til að taka viðstöðulaust skot og ég beið aðeins og setti hann svo upp í netið.“

Það er óhætt að segja að leikurinn hafi staðið undir væntingum því boðið var upp á mjög góðan fótboltaleik, tveggja afar góðra liða sem af mörgum eru talin þau bestu á landinu um þessar mundir.

Guðjón Árni Antoníusson, hinn magnaði bakvörður Keflavíkurliðsins, kom toppliði Landsbankadeildarinnar yfir á 12. mínútu þegar hann prjónaði sig skemmtilega í gegnum vörn Blika og skoraði með föstu skoti. Blikarnir, með blússandi sjálfstraust, létu þetta ekkert slá sig út af laginu því fjórum mínútum síðar jafnaði einn heitasti leikmaður landsins, Jóhann Berg Guðmundsson, metin, með föstu skoti frá vítateigslínu og það sem eftir lifði hálfleiksins sóttu liðin á víxl en Blikarnir voru öllu sterkari og markvissari.

Síðari hálfleikurinn var ekki nema 58 sekúndna gamall þegar Jóhann Berg var aftur á ferðinni. Hann sýndi snilli sína og skoraði með hnitmiðuðu skoti og Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari má svo sannarlega fara að gefa þessum pilti góðan gaum. Keflvíkingar gerðu tvær breytingar á liði sínu í hálfleik og gerðu þá þriðju í upphafi seinni hálfleiks þegar Jóhann Birnir Guðmundsson var kallaður til leiks en hann sneri heim úr atvinnumennskunni í fyrradag. Keflvíkingum óx ásmegin og þeim tókst að jafna þegar Guðmundur Steinarsson skallaði í netið, einn og óvaldaður í teignum. Blikarnir bættu í eftir þetta og Magnús Páll tryggði þeim farseðilinn í undanúrslitin. ,,Keflavík er að mínu mati sterkasta liðið í deildinni og að hafa slegið það út er afar sætt. Leikurinn var virkilega góður og kannski var dugnaður meiri hjá okkur sem gerði útslagið,“ sagði Ólafur H. Kristjánsson, þjálfari Blika.

Breiðablik 3 Keflavík 2

Kópavogsvöllur, bikarkeppni KSÍ, VISA-bikar karla, 8 liða úrslit, fimmtudaginn 24. júlí 2008.

Mörk Breiðabliks : Jóhann Berg Guðmundsson 16., 46., Magnús Páll Gunnarsson 82.

Mörk Keflavíkur : Guðjón Árni Antoníusson 12., Guðmundur Steinarsson 64.

Markskot

: Breiðablik 12 (6) – Keflavík 9 (4).

Horn : Breiðablik 4 – Keflavík 7.

Rangstöður : Breiðablik 1 – Keflavík 2

Skilyrði : Hægvirði, skýjað með köflum og hiti um 13 stig. Völlurinn mjög góður.

Lið Breiðabliks : (4-4-2) Casper Jacobsen – Arnór Sveinn Aðalsteinsson, Finnur Orri Margeirsson, Srdjan Gasic, Kristinn Jónsson – Nenad Zivanovic (Magnús Páll Gunnarsson 69.), Arnar Grétarsson, Guðmundur Kristjánsson, Nenad Petrovic – Jóhann Berg Guðmundsson (Olgeir Sigurgeirsson 85.), Marel J. Baldvinsson.

Gul spjöld : Engin.

Rauð spjöld : Engin.

Lið Keflavíkur : (4-4-2) Ómar Jóhannsson – Guðjón Árni Antoníusson, Hallgrímur Jónasson, Kenneth Gustafsson, Nicolai Jörgensen (Brynjar Guðmundsson 46.) – Patrik Redo (Jóhann Birnir Guðmundsson 52.), Hólmar Örn Rúnarsson, Einar Orri Einarsson (Hans Mathiesen 46.), Símun Samuelsen – Guðmundur Steinarsson, Magnús Sverrir Þorsteinsson.

Gul spjöld : Jörgensen 28. (brot), Guðjón Árni 39. (brot).

Rauð spjöld : Engin.

Dómari : Einar Örn Daníelsson, Víkingi R.

Aðstoðardómarar : Ólafur Ingvar Guðfinnsson og Smári Stefánsson.

Áhorfendur : 1.019.