— 24stundir/G.Rúnar
Eftir Þóru Kristínu Þórsdóttur thorakristin@24stundir.is „Það eru engin læknisfræðileg rök fyrir því að geyma megi fósturvísa að hámarki í fimm ár enda er þetta hámark tíu til fimmtán ár í þeim löndum sem Íslendingar bera sig saman við.

Eftir Þóru Kristínu Þórsdóttur

thorakristin@24stundir.is

„Það eru engin læknisfræðileg rök fyrir því að geyma megi fósturvísa að hámarki í fimm ár enda er þetta hámark tíu til fimmtán ár í þeim löndum sem Íslendingar bera sig saman við.“

Þetta segir Hólmfríður Gestsdóttir, móðir tveggja barna sem urðu til við glasafrjóvgun, og ein af tugum einstaklinga sem hvatt hafa heilbrigðisráðherra bréflega til að endurskoða leyfðan hámarksgeymslutíma fósturvísa.

Eggheimtan mikil aðgerð

Hólmfríður bendir á að eggheimtan sjálf, þegar egg eru sótt í eggjastokka konunnar, sé töluverð aðgerð auk þess sem henni fylgi mikil lyfjagjöf. „Vilji konur svo eignast fleiri börn að þessum fimm árum liðnum þurfa þær að fara í gegnum alla aðgerðina aftur í stað þess að nota bara fósturvísa sem þegar hafa orðið til. Einnig minnka gæði fósturvísanna eftir því sem konan eldist, og því minni líkur á að uppsetningin heppnist með nýju fósturvísunum en þeim gömlu.“

Þegar eggin hafa verið sótt er reynt að frjóvga þau í tilraunaglasi. Takist það er einum eða tveimur fósturvísum komið fyrir í leginu. Hafi myndast fleiri fósturvísar eru þeir sem afgangs eru settir í frost. „Oft þarf nokkrar tilraunir, en þótt þetta heppnist hálfu ári eftir glasafrjóvgun eru rúm þrjú ár eftir af geymslutímanum þegar barnið fæðist. Pörin eru því undir mikilli tímapressu,“ segir hún og bætir við: „Svo er manni auðvitað sárt um fósturvísana sína og vill ekki sjá heilbrigðum fósturvísum eytt, enda búinn að hafa mikið fyrir þeim.“

Fjárhagslega erfitt

Margrét Inga Gísladóttir, sem samdi fjöldabréfið til ráðherra, segir óþarfa fjárhagslegan þrýsting vera lagðan á pörin með skömmum geymslutímanum. „Meðferðinni fylgir mikill kostnaður og þegar hún loks ber árangur tekur tíma að rétta úr kútnum. Fólk vill þá auðvitað bíða aðeins með að fara aftur af stað,“ segir hún.

Geymslutími fósturvísa verður sérstaklega skoðaður í endurskoðun starfshóps í heilbrigðisráðuneytinu á reglugerð um tæknifrjóvganir, að sögn upplýsingafulltrúa.

Í hnotskurn
Verð á meðferð er mismunandi eftir fjölskyldustærð ofl. hjá Artmedica. Fyrir par með tvö börn kostar meðferðin 295 þús. Eru lyf þá undanskilin. Greiddar eru 15 þús. krónur á ári fyrir geymslu frystra fósturvísa. Sé frystum fósturvísi komið fyrir í legi (uppsetning) kostar það 52 þús.