Eftir Þormóð Dagsson
thorri@mbl.is
Fyrsti tengiltvinnbíll landsins var kynntur síðasta haust í tengslum við Samgönguviku 2007 þar sem skoðaðar voru ýmsar visthæfar lausnir í samgöngumálum. Bíllinn er í eigu Guðmundar Árnasonar á Akureyri en hann bauð fram Prius-tvinnbíl sinn í sérstakt tengiltvinnbíla-tilraunaverkefni á vegum Orkuseturs. Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja, er bakhjarl verkefnisins.
Í grunnatriðum var bíllinn útbúinn stærri og öflugri rafhlöðu þannig að hægt er að hlaða bílinn utanaðkomandi rafmagni. Bílnum er einfaldlega stungið í samband við venjulega heimilisinnstungu. Hleðslan verður talsvert meiri en á venjulegum tvinnbíl og gengur því bíllinn að miklum hluta á rafmagninu einu saman og bensíneyðslan minnkar í samræmi við það.
Nýverið tilkynntu framleiðendur Toyota að þeir myndu hefja fjöldaframleiðslu á tengiltvinnbílum árið 2010.
Grunnaðstæður hvergi betri
„Við höfum lagt mikla áherslu á að kynna fyrir fólki möguleika rafmagns í samgöngum í landinu af því að þar fæst besta orkunýtnin og ekki skemmir fyrir að hér á landi gefur hver einasta innstunga grænt rafmagn frá endurnýjanlegum orkugjöfum,“ segir Sigurður Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs. „Þar að auki eigum við nóg af rafmagni þannig að grunnaðstæðurnar eru hvergi betri en hér á landi fyrir rafmagn í samgöngur.“Hann segir að grunnhugmyndin að baki tengiltvinnbílnum sé að fá það besta úr báðum heimum, annars vegar orkunýtnina og hreinleikann úr rafmagninu og hins vegar kraftinn og drægnina frá bensínvélinni.
„Það fer síðan eftir því hvernig þú keyrir en bíllinn getur verið 50-80% rafmagnsbíll,“ heldur Sigurður áfram. „Það hefur verið mjög freistandi að ná utanaðkomandi orku inn í bílana og það gerist með þessari tengiltvinnbílatækni. Við teljum að þetta sé tilvalin tækni fyrir Íslendinga.“
Bylting
„Þetta er algjör bylting,“ segir Guðmundur Árnason sem hefur ekið um á tengiltvinnbíl sínum undanfarna tíu mánuði. Bíllinn er undir ströngu eftirliti breskra sérfræðinga sem sáu um breytingu bílsins en tengiltvinnbíll Guðmundar er sá fyrsti sinnar tegundar á Norðurlöndunum.„Þetta er bíll í millistærð og frekar þungur bíll en hann eyðir um það bil helmingi minna en hefðbundinn Prius sem eyðir undir fimm lítrum á hundraðið. Það er ansi mikil bæting,“ útskýrir Guðmundur. „Það er alveg ótrúlegt að líða áfram á götum bæjarins og meira og minna slökkt á bensínvélinni allan tímann. Ég myndi alla vega eiga rosalega erfitt með að fara aftur yfir í venjulegan bensínbíl. Það yrðu þung skref fyrir mig.“
Tengiltvinnbíllinn verður svo til sýnis á ráðstefnunni Driving Sustainability í haust, ári eftir að hann var fyrst kynntur til leiks, en á ráðstefnunni að þessu sinni verður rafmagn í samgöngum sérstaklega tekið til skoðunar.
Í hnotskurn
» Fyrsti tengiltvinnbíll landsins var kynntur til leiks síðasta haust. Bíllinn er breyttur Prius-tvinnbíll með stærri og öflugri rafhlöðu sem má hlaða með utanaðkomandi rafmagni.» Guðmundur Árnason, eigandi bílsins, segir tæknina byltingu en bíllinn eyðir rúmlega tveimur lítrum á hundraðið í innanbæjarakstri.
» Bíllinn er undir ströngu eftirliti breskra sérfræðinga en Guðmundur sendir vikulega til þeirra upplýsingar úr tölvu bílsins.
» Toyota stefnir á að hefja fjöldaframleiðslu á tengiltvinnbílum árið 2010.