Kristján Bersi Ólafsson fylgdist með veðurfréttum:
Í vændum er vindaterta
sem vekur með fisléttum hroll,
því fellibylurinn Berta
blæs þeim fljótlega um koll.
Pétur Stefánsson orti að bragði:
Sé ég regnvot skrugguský
skríða um norðurhjara.
Stígvélin við eflaust í
ættum nú að fara
Hjálmar Freysteinsson læknir á Akureyri gekk á Kaldbak og orti á leiðinni:
Fjallgöngur eru ferlegt puð,
fyllilega segja má,
óleik okkur gerði Guð
að gera fjöllin svona há.
Hann segist auðvitað vera var um sig í gönguferðum nú um stundir:
Spurningin sýnist sanngjörn
er sé ég í fjarska mynd:
Er þetta lítill ísbjörn
eða stórvaxin kind?