HJÖRTUR Hjartarson, tölvutæknifræðingur og kaupmaður, lést 24. júlí sl. Hann fæddist 23. desember 1929 í Reykjavík. Foreldrar hans voru Ásta L. Björnsdóttir frá Ánanaustum fædd 24. nóv. 1908 og Hjörtur Hjartarson stórkaupmaður fæddur 31. okt. 1902.

HJÖRTUR Hjartarson, tölvutæknifræðingur og kaupmaður, lést 24. júlí sl. Hann fæddist 23. desember 1929 í Reykjavík.

Foreldrar hans voru Ásta L. Björnsdóttir frá Ánanaustum fædd 24. nóv. 1908 og Hjörtur Hjartarson stórkaupmaður fæddur 31. okt. 1902.

Hjörtur var einn af frumkvöðlum tæknideildar IBM á Íslandi og starfaði þar í 33 ár. Í tvö ár var hann framkvæmdastjóri tæknideildar IBM hjá Sameinuðu arabísku furstadæmunum með aðsetur í Dubai. Þegar Hjörtur lauk störfum hjá IBM hóf hann eigin rekstur ásamt eiginkonu og syni, innrömmunina Hjá Hirti, sem þau starfræktu til 1. febrúar 2008.

Hjörtur var sannur KR-ingur, stundaði knattspyrnu og skíðaíþróttina í mörg ár hjá því félagi.

Hann var einn af stofnendum Rótarýklúbbs Seltjarnarness, virkur þátttakandi í starfi Sjálfstæðisfélags Seltjarnarness og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum á þess vegum. Hjörtur var einn af stofnendum siglingaklúbbsins Sigurfara á Seltjarnarnesi og formaður um skeið. Hann var lærður vélstjóri og starfaði á yngri árum á Arnarfellinu. Á námsárunum starfaði hann hjá Hval hf. Hann var meðal stofnenda Sparisjóðs Vélstjóra.

Eftirlifandi eiginkona Hjartar er Jensína (Jenný) Guðmundsdóttir frá Sæbóli á Ingjaldssandi. Börn þeirra eru Drífa, bóndi og fyrrverandi alþingismaður, Ingibjörg glerlistamaður, Hjörtur, grafískur hönnuður, látinn 7. nóv. 2007, Anna Ásta, viðskiptastjóri hjá SPRON, Björn Grétar verslunarmaður og Guðmundur Ingi, framkvæmdastjóri Netheims.