[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristján og Emma eru með rennandi vatn, rafmagn og heila eldhúsinnréttingu í hvíta tjaldinu sínu auk þess að vera með sérstaklega stórt tjald enda hafa þau mætt á þjóðhátíð síðastliðin 40 ár.

Eftir Svanhvíti Ljósbjörgu

svanhvit@24stundir.is

Kristján Óskarsson og Emma Pálsdóttir eiga sennilega eitt glæsilegasta hvíta tjaldið í dalnum því þar er rennandi vatn, heil eldhúsinnrétting og rafmagn. Enda ekki amalegt að hafa góða aðstöðu því Kristján og Emma eru fastagestir á þjóðhátíð, að sögn Kristjáns. „Við höfum farið með hvítt tjald í dalinn alveg frá því við hófum búskap. Það eru um 40 ár síðan við giftum okkur og við höfum farið á nánast allar þjóðhátíðir síðan. Þetta er alltaf jafn skemmtilegt. Við erum svo heppin að þar sem við tjöldum hvíta tjaldinu árlega er vatnspóstur og rafmagn. Það var í kringum árið 2000 sem við tengdum okkur við rafmagnið og fengum rennandi vatn. Vatnið tengjum við inn í tjaldið með plasti sem er í jörðinni og með hraðtengjum.“

Lúxustjald

Kristján segir að það sé mikill munur að vera með rafmagn og rennandi vatn. „Við létum smíða litla eldhúsinnréttingu inn í tjaldið okkar og svo erum við með lítinn ísskáp til að hafa rjómaterturnar í. Við notum líka rafmagnið fyrir vöfflujárnið og fleira í þeim dúr,“ segir Kristján en fyrir 2000 höfðu þau verið með gas í stað rafmagns. „Það vita allir í Eyjum af þessum lúxus hjá okkur og fleiri í nágrenninu eru að gera það sama í sínum tjöldum. Hins vegar hafa ekki allir aðgang að vatninu og það er bara efri byggðin af hvítu tjöldunum sem er nálægt vatninu.“

Setustofa og eldhús

Það er ekki bara að það sé rennandi vatn og rafmagn í tjaldi Kristjáns og Emmu heldur er tjaldið líka stórt og glæsilegt. „Það eru þrjár fjölskyldur sem deila þessu tjaldi og við erum búin að láta sauma saman tvö tjöld. Þetta er því bara einn stór geimur og við nýtum annað tjaldið sem setustofu en hitt sem eldhús,“ segir Kristján og viðurkennir að það sé alltaf fjör í tjaldinu á þjóðhátíð. „Það er alls staðar fjör í hvítu tjöldunum á þjóðhátíð. Við erum meira og minna í tjaldinu þessa helgina en við förum heim að sofa, misseint þó,“ segir Kristján að lokum og hlær.
Í hnotskurn
Hvíta tjaldið sem Emma og Kristján eiga kallast Þingholt. Það tekur eitt kvöld að koma upp tjaldinu. Emma og Kristján tjalda tjaldinu alltaf á sama svæðinu og hafa gert síðastliðin 37 ár eða svo. Í Þingholti er jafnan boðið upp á alls kyns kræsingar og konurnar í fjölskyldunni baka í allt að viku fyrir þjóðhátíð.