Sóley Tómasdóttir
Sóley Tómasdóttir
Frístundaheimilin eru fyrir börn segir Sóley Tómasdóttir: "Áframhaldandi þróun frístundaheimilanna verður að hvíla á tveimur grundvallarforsendum: Hugmyndafræði frítímans og þörfum barnanna."

UMRÆÐA um frístundaheimili í Reykjavík hefur verið talsverð upp á síðkastið. Langir biðlistar eftir dvöl á frístundaheimili eru vandamál og borgaryfirvöld hafa reynt að finna lausnir. Tillaga um aukna samþættingu grunnskóla- og frístundastarfs er góðra gjalda verð, enda var hún samþykkt samhljóða í borgarráði á dögunum.

Frístundaheimilin eru ung að árum. Eftir að Íþrótta- og tómstundasvið tók við rekstri heimilanna fyrir 8 árum hefur hugmyndafræði frítímans verið að ryðja sér til rúms og ný fagstétt frístundafræðinga vaxið ört. Umræðan er því afar viðkvæm og lítið þarf til að skapa óöryggi meðal starfsfólks, barna og foreldra. Eigi frístundaheimilin að halda áfram að vaxa og dafna verða allar lausnir að hvíla á tveimur grundvallarforsendum: Hugmyndafræði frítímans og þörfum barnanna.

Hvar á málaflokkurinn heima?

Borgarfulltrúar meirihlutans hafa gert því skóna að möguleg lausn felist jafnvel í öðrum rekstraraðilum. Hugsanlega hafi flutningur frístundaheimilanna frá menntasviði til ÍTR verið mistök og því beri að athuga hvort einhverjir skólastjórar geti hugsað sér að taka aftur við rekstrinum.

Þessar hugmyndir taka ekki mið af þeirri þróun sem hefur átt sér stað á undanförnum árum, né heldur þeirri staðreynd að skólasamfélagið er gamalgróið og virt en frístundageirinn ungur og óreyndur. Stjórmálafólk verður að standa með þeirri pólítísku stefnumörkun að gera frítímanum hærra undir höfði og styðja þannig frístundaheimilin til áframhaldansdi starfs. Grunnskólar Reykjavíkur eru framúrskarandi sem slíkir, en þar er engin sérþekking til staðar á frítímastarfi barna og unglinga. Sú þekking er meðal starfsfólks ÍTR og hana ber að virða, efla og nýta.

Hugmyndir um færslu málaflokksins, að hluta til eða í heild, eru frekar til marks um uppgjöf en dug. Metnaðarfullt stjórnmálafólk á að styðja unga og efnilega fagstétt og hvetja til frekari dáða. Það verður aðeins gert með pólitískum stuðningi við áframhaldandi uppbyggingu frístundaheimilanna á vegum Íþrótta- og tómstundasviðs.

Fyrir hverja eru frístundaheimilin?

Frístundaheimilin eru fyrir börn. Auðvitað hafa þau mikið gildi fyrir foreldra sem flestir vinna fullan vinnudag og vilja vita af börnum sínum í öruggum höndum, en þjónustan á að snúast um börnin.

Leiðarljós frístundaheimilanna eru að hver einstaklingur fái að njóta sín og þroskast í umhverfi sem einkennist af hlýju, öryggi og virðingu. Lögð er áhersla á að efla virkni, ábyrgð, sjálfsmynd og sjálfstæði barnanna og kynna þau fyrir ólíkum frístundatilboðum svo þau sjálf geti valið það sem þeim hentar best. Gengið er út frá þeirri hugmyndafræði að frítíminn hafi sjálfstætt gildi, hann sé ekki eyða eða tómarúm sem þurfi að bíða af sér, heldur sé hann fyrst og fremst uppbyggjandi og skemmtilegur.

Starfsfólk frístundaheimilanna hefur þróað með sér leiðir til að efla færni barna til að njóta frítímans og þroskast gegnum hann sem sjálfstæðir og sterkir einstaklingar. Það er kúnst að njóta. Kúnst sem ekki er á allra færi.

Fagmennskan í fyrirrúmi

Tilkoma frístundaheimilanna var mikið framfararskref í þjónustu við börnin í borginni, skref sem fól í sér skilning á því að fagmennska skyldi höfð í fyrirrúmi í allri þjónustu við börn, hvort sem er í leikskólastarfi, grunnskólastarfi eða frístundastarfi. Börnin okkar eiga það besta skilið. Það sama gildir um metnaðarfullt og ósérhlífið starfsfólk ÍTR sem hefur byggt upp þjónustuna og á að njóta skilnings og faglegs stuðnings borgaryfirvalda.

Vinstri græn leggja því höfuðáherslu á að uppbygging frístundaheimilanna haldi áfram á vegum ÍTR og munu leggja sitt af mörkum til að svo verði.

Höfundur er fulltrúi VG í íþrótta- og tómstundaráði.