The Walt Disney Company. All Rights Reserved.
The Walt Disney Company. All Rights Reserved. — Mynd/Buena Vista Home Video
Eftir Kristján G. Arngrímsson kga@24stundir.is Mary Poppins er ímynd bresku barnfóstrunnar, sem ætíð hefur verið mikil eftirspurn eftir í heiminum, en nú þegar harðnar á dalnum í fjármálalífinu hvarvetna fer atvinnuleysi meðal breskra barnfóstra...

Eftir Kristján G. Arngrímsson

kga@24stundir.is

Mary Poppins er ímynd bresku barnfóstrunnar, sem ætíð hefur verið mikil eftirspurn eftir í heiminum, en nú þegar harðnar á dalnum í fjármálalífinu hvarvetna fer atvinnuleysi meðal breskra barnfóstra vaxandi.

Fréttastofa Reuters hefur eftir Kate Baker, hjá Abbeville Nannies í London, að undanfarið hálft annað ár hafi verið gósentíð hjá breskum barnfóstrum. Laun þeirra hafi numið allt að 40.000 pundum eða sem svarar um sjö milljónum króna, en nú sé farið að líta á það sem lúxus að hafa breska barnfóstru.

Í mars sl. bárust þau tíðindi að eftirspurnin eftir „Mary Poppins“ hefði aldrei verið meiri, og tölur stærstu umboðsskrifstofunnar í Bretlandi, Tinies, sýndu að 2007 var 57% fjölgun á atvinnutækifærum fyrir breskar barnfóstrur erlendis.

Samkeppnin um þær var svo mikil, að launin sem buðust hækkuðu úr öllu valdi. Bárust fréttir af fjölskyldu í Moskvu sem bauðst til að greiða breskri barnfóstru hátt í 80.000 pund á ári eða sem svarar rúmlega einni milljón íslenskra króna á mánuði.

En nú verða bankamenn og peningamangarar víða um heim unnvörpum fórnarlömb kreppunnar í fjármálalífinu, sem kollsiglt hefur þremur stærstu fjárfestingabönkunum í Bandaríkjunum.

Mörg þúsund manns í fjármálahverfinu í London hafa annaðhvort þegar misst vinnuna eða mega búast við að missa hana á næstu vikum.

„Þetta er rétt að byrja. Undanfarna viku eða svo er ég farin að fá símtöl frá barnfóstrum sem segja að annar eða báðir vinnuveitenda sinna hafi misst vinnuna og þær séu því einnig atvinnulausar,“ hefur Reuters-fréttastofan eftir Baker.

Breskar barnfóstrur hafa alltaf verið eftirsóttar hvarvetna í heiminum og verða það líklega áfram þrátt fyrir harðnandi samkeppni frá Austur-Evrópu.

„Markaðurinn fór að breytast fyrir nokkrum árum. Nýríka fólkið með glæsivillurnar sínar leitaði ekki að barnfóstrum hérlendis, heldur í Austur-Evrópu,“ segir Julie Bremner, eigandi Knightsbridge Nannies.

„Barnfóstrurnar sem koma þaðan eru ódýrari en ekki nærri eins góðar og okkar. Þetta er fólkið sem fyrst verður fyrir áfalli. Heimsbyggðin kemur enn til Bretlands í leit að hinni einu sönnu bresku barnfóstru,“ segir Bremner.

Í hnotskurn
Mikil eftirspurn hefur verið eftir breskum barnfóstrum undanfarin ár, og launin sem þeim buðust fóru í allt að einni milljón króna á mánuði. En undanfarið hafa fjölmargir bankamenn misst vinnuna, og þá hafa þeir ekki lengur efni á að greiða barnfóstrunum laun.