Sigríður Ingibjörg Kristinsdóttir fæddist á Hofi í Vatnsdal 24. apríl 1925. Hún andaðist á hjúkrunarheimilinu Grund 17. september síðastliðinn. Foreldrar hennar voru hjónin Kristín Guðbjörg Sölvadóttir frá Hólagerði á Skagaströnd, f. 1884, d. 1950, og Kristinn Bjarnason, f. 1892, d. 1968, sem alinn var upp í Ási í Vatnsdal, bóndi og hagyrðingur. Þau bjuggu í Þingeyraseli í Áshreppi en urðu að bregða búi og láta fjögur elstu börnin frá sér í fóstur þegar Kristín Guðbjörg fatlaðist alvarlega af heilablóðfalli og fluttu til Vestmannaeyja 1925. Systkini Sigríðar voru, samfeðra, Ásgrímur bóndi í Ásbrekku í Vatnsdal, síðar í Reykjavík, f. 1911, d. 1988. Alsystkin: Ásdís húsfreyja í Kópavogi, f. 1912, d. 1991, Gunnar fangavörður í Reykjavík, f. 1913, d. 1982, Bjarni bóndi í Auðsholtshjáleigu í Ölfusi, síðast á Selfossi, f. 1915, d. 1982, Aðalheiður Jóhanna húsfreyja í Skíðsholtum á Mýrum, nú búsett í Málmey í Svíþjóð, f. 1916, og Benedikt Ragnar farmaður, búsettur í Höfðaborg í Suður-Afríku, f. 1921, d. 2000. Hálfsystur Sigríðar, samfeðra, dætur Kristins og seinni konu hans, Guðfinnu Ásdísar Árnadóttur frá Vestmannaeyjum, f. 1903, d. 1990, eru; Jóhanna Árveig húsfreyja í Borgarholti í Biskupstungum og síðar á Akureyri, f. 1929, d. 2002, Bergþóra Gunnbjört húsfreyja í Reykjavík, f. 1933, Hrafnhildur fulltrúi í Garðabæ, f. 1935, og Guðlaug Ásrún húsfreyja í Reykjavík, f. 1936, d. 1998.

Foreldrar Sigríðar skildu fljótlega eftir að þau fluttust til Vestmannaeyja þegar hún var enn í frumbernsku og ólust hún og Benedikt Ragnar bróðir hennar upp hjá móður sinni sem vann fyrir þeim sem vinnukona á sveitaheimilum víðsvegar um land þar til þau settust að í Reykjavík árið 1933. Sigríður nam við Austurbæjarskólann og námsflokka Reykjavíkur.

Ung kynntist hún eiginmanni sínum, Þorvaldi Aðalsteini Eyjólfssyni bifvélavirkjameistara frá Ferjubakka í Borgarhreppi, f. 1915, d. 1978, og gengu þau í hjónaband 25. október 1942. Foreldrar hans voru Guðríður Þórarinsdóttir, f. 1885, d. 1979, og Eyjólfur Jónsson, 1886, d. 1970. Sigríður og Þorvaldur eignuðust fimm syni sem eru: 1) Sölvi Þór, f. 4.9. 1941, kvæntur Kristínu Kristjánsdóttur, f. 16.4. 1942. Synir þeirra eru a) Grétar, f. 27.11. 1964, kvæntur Þóru Guðrúnu Gunnarsdóttur, f. 29.5. 1966, dætur þeirra eru Klara Rakel, f. 29.12. 1992, og Júlía, f. 8.7. 1995. b) Arnar, f. 18.3. 1966, kvæntur Hildi Gunnlaugsdóttur, f. 25.6. 1966, börn þeirra eru Gunnlaugur Freyr, f. 6.6. 1992, Arnar Þór, f. 13.10. 1997, og Hildur Katrín, f. 19.12. 2000. Sonur Arnars og Kristrúnar Pálmadóttur, f. 27.9. 1966, er Styrmir Franz, f. 12.10. 1985. c) Gunnar, f. 16.7. 1974, sambýliskona Sandra Júlíusdóttir, f. 11.7. 1980, dóttir hennar er Júlía Rún, f. 20.10. 2004. 2) Eyjólfur Már, f. 29.1. 1943, d. 13.7. 1948. 3) Valur Steinn, f. 15.4. 1945, kvæntur Guðrúnu Sigurðardóttur, f. 16.1. 1951, börn þeirra eru: a) Hanna Lilja, f. 22.4. 1975, gift Gísla Kristbirni Björnssyni, f. 8.1. 1971, börn þeirra eru Þorkell Valur, f. 15.8. 2003, og Guðrún Filippía, f. 18.4. 2007. b) Sigríður Þóra, f. 9.3. 1977, gift Ingólfi Kristjáni Guðmundssyni, f. 28.11. 1975. c) Sigurður Már, f. 2.8. 1982, unnusta Dröfn Helgadóttir, f. 22.3. 1984. 4) Þorvaldur, f. 15.11. 1956, kvæntur Gróu Kristjánsdóttur, f. 6.7. 1963. Börn þeirra eru Kristján, f. 8.2. 1983, og Edda Sif Bergmann, f. 14.9. 1986, í sambúð með Guðmundi Hreini Gíslasyni, f. 2.2. 1984. 5) Haukur, f. 16.4. 1964. Synir hans og fyrrverandi eiginkonu hans Kristínar Hreiðarsdóttur, f. 20.6. 1967, eru Hreiðar, f. 18.5. 1988, og Þorvaldur Aðalsteinn, f. 27.10. 1989. Dóttir Hauks og Hildu Karenar Garðarsdóttur, f. 28.4. 1976, er Maríanna Sól, f. 6.3. 2001.

Sigríður og Þorvaldur festu kaup á sumarbústað í Sogamýrinni, þar sem heitir nú Rauðagerði, og hófu þar búskap. Síðar byggðu þau sér nýtt hús á lóðinni. Eftir að Þorvaldur lést bjó Sigríður á nokkrum stöðum í Reykjavík og á Seltjarnarnesi. Hún var búsett á Lindargötu 57 í 10 ár þar til hún vistaðist á hjúkrunardeild á Grund fyrir tveimur árum. Sigríður starfaði sem matráðskona í Iðnskólanum, Sementsverksmiðjunni og Lyngási. Einnig starfaði hún sem sjúkravinur hjá Rauða krossinum. Sigríður hafði yndi af hannyrðum sem hún stundaði meðan heilsa og kraftar leyfðu.

Útför Sigríðar fer fram frá Fossvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 11.

Að leiðarlokum minnist ég móður minnar fáeinum orðum. Hún fæddist á Hofi í Vatnsdal, en þangað hafði Kristín amma mín verið ferjuð frá Ási fáeinum dögum fyrr ásamt tveggja ára syni, því Sigurlaug húsfreyja í Ási taldi að ekki væri gæfa yfir barnsfæðingum í Ási þá um stundir. Þremur vikum síðar flutti amma með börnin tvö til Vestmannaeyja til Kristins afa, þar sem þau hugðust hefja saman nýtt og betra líf. Þau höfðu búið í Þingeyraseli ásamt börnum sínum, þegar amma hné niður í flekknum af heilablóðfalli, lá í viku í dái og var mjög fötluð þegar hún komst til vitundar á ný. Þá var ekki annar kostur en bregða búinu og koma elstu börnunum til fósturs hjá góðu fólki. Sjálf voru þau með yngsta drenginn í skjóli Sigurlaugar og Guðmundar Ólafssonar alþingismanns í Ási, sem höfðu áður fóstrað bæði afa og Ásgrím elsta son hans. Í sorg sinni orti afi kvæðið Söknuð:

Hvað ertu lífsknörr, eitt forlagaflak

fannst ekkert ráð mínu skipbroti að varna?

Sárust var reynslan að sjá þér á bak

sólbjarta æskunnar hamingjustjarna.

Ó hversu vina mín sárt ég þig syrgi,

sár mín og tár fyrir heiminum byrgi

þó er mér einveran þjáning og kvöl,

þungt er að reyna slíkt örlagaböl.

Myrkur og tóm þar sem minningin þverr

mátturinn horfinn sem lífsþráin knúði.

Líf mitt svo dapurt og einmana er

annar sér tók mína föstnuðu brúði.

Vona ég dauðinn mér líknarhönd leggi

létti af mér grimmasta forlaga hreggi

neitaðu mér ekki Guð um þá gjöf

gef þú mér friðinn þinn trúfasta gröf.

Örlög höguðu því svo að afi og amma skildu í Eyjum og hún barðist ein áfram með börnin tvö, fötluð einstæð móðir, löngu fyrir daga almannatrygginga. Þetta var harður heimur með sífelldum flutningum úr einni vist í aðra. Mamma gekk í Austurbæjarbarnaskólann og síðan í kvöldskóla. Hún var vel gefin og kappsöm og skólagangan nýttist henni vel þótt takmörkuð væri.

Móðir mín var ung þegar þau pabbi tóku saman, og fyrir tvítugt hafði hún eignast okkur þrjá elstu synina af fimm. Hún var aðeins 23 ára þegar þau misstu næstelsta soninn, sem setti mark á lífið. Þegar ég lít til baka hlýt ég að dást að því hve vel móður minni tókst að vinna úr takmörkuðum og oft erfiðum aðstæðum. Hún var metnaðarfull húsmóðir og móðir og þrátt fyrir fremur knöpp efni bjuggu hún og pabbi okkur fyrirmyndarheimili þar sem ekkert skorti af því sem máli skiptir. Hún var hrein og bein í orðum, ekki alltaf diplómat, en talaði sér aldrei þvert um hug til vinsælda. Hún erfði næma tilfinningu fyrir ljóðlist og íslensku máli og gerði snotrar vísur þegar svo bar undir. Þau 10 ár sem hún bjó ekkja á Lindargötu 57 naut hún sín vel í félagsstarfi og var þar hrókur alls fagnaðar. Einnig lék hún þá í gamanþáttum í sjónvarpi og auglýsingum.

Síðustu tvö árin dvaldi móðir mín á hjúkrunardeild á Grund, með skýran huga en þrotin að kröftum. Þar bjó hún í tvíbýli með yndislegri konu, Sólrúnu Hannibalsdóttur, sem hún kaus sér frekar en einbýli.

Seint verður fullþökkuð sú umhyggja, hlýja og alúð sem starfslið Grundar auðsýndi móður minni. Starfshópurinn er samhent einvalalið, og margir eiga þar langan feril. Á Grund ríkir fágæt heimilismenning, þar sem svo vel er þjónað að ekki væri sanngjarnt að biðja um meira.

Að lokum hugstætt erindi eftir Davíð Stefánsson:

Því aðeins færð þú heiðrað og metið þína

móður,

að minning hennar verði þér alltaf hrein

og skír

og veki hjá þér löngun til að vera öðrum

góður

og vaxa inn í himininn – þar sem

kærleikurinn býr.

Kveðja,

Valur.

Með sorg í hjarta sit ég og rifja upp ótal minningar frá fyrri tíð, elsku tengdamamma. Mér finnst dauðinn vera svo endanlegur sem hann er jú víst. Við eigum ekki eftir að fá þig í helgarheimsókn aftur, þar sem við fáum okkur súkkulaðikaffi á laugardagseftirmiðdegi, en minningarnar eru ótalmargar.

Ég man þegar ég hitti þig fyrst heima í Rauðagerði. Ég var þá bara eiginlega hálfgert barn, aðeins 19 ára, og kom heim með Þorvaldi í fyrsta skipti. Eftir að hafa verið kynnt spurðir þú mig hverra manna ég væri. Ég reyndi að skýra frá því eftir bestu getu en þarna fyrst kynntist ég áhuga þínum á ættfræði og fólki almennt. Í gegnum árin hef ég setið og hlustað á þig og Þorvald tala um fólk og ættir en varð iðulega alveg ringluð á umræðunni. Þetta hefur þó kennt mér að vita hverra manna maður er og jafnvel að leggja rækt við ættfræðina.

Á Grundinni um daginn fann ég dagbók úr ferðinni okkar um Evrópu. Ég vissi ekki að þú hefðir haldið dagbók um ferðina en það var mjög gaman að lesa hana og sjá hvað þú hafir haft gaman af ferðinni. Þetta var ekki alveg auðveld ferð og lungann úr ferðinni gistum við í pínulitlum göngutjöldum en ekki hústjaldi með mörgum herbergjum eins og tíðkast nú. Seinni hluti ferðarinnar var þó öllu þægilegri og ég las að þér fannst mikið til koma að hafa haft smáþægindi. Þar er ég þér sammála; það er miklu betra að hafa rúm og bað. Ég las líka, og hafði eiginlega gleymt því, að það voru bakaðar pönnsur í þeirri ferð og gott ef þú hafðir ekki pönnukökupönnuna með í farteskinu. Ég man líka að börnin mín kunnu að meta pönnsurnar sem amma Sigga bakaði í þessari ferð en þau kunnu svo sem alltaf að meta þær. Ferðirnar til útlanda urðu nú fleiri og held ég að þú hafir haft jafngaman af þeim öllum.

Við áttum eitt sameiginlegt áhugamál og var það handverkið. Hvert sem litið er heima má sjá hluti eftir þig og met ég það mikils. Það var líka gaman þegar við sátum mæðgurnar á Vitatorginu og fengum leiðsögn um hvernig ætti að gera mósaíkmyndir. Myndin sem við gerðum saman hangir nú í eldhúsglugganum. Á hverju kvöldi þegar ég leggst til svefns eða vakna á morgnana sé ég líka myndina af fuglunum sem þú gerðir og hékk í glugganum þínum á Vitatorginu. Hvar sem er og hvenær sem er mun ég geyma minninguna um þig í hjarta mínu og þó svo ég væri ekki alltaf sammála þér þá man ég allar góðu stundirnar sem við áttum saman og geymi þær vel.

Ég vil að lokum þakka þér, elsku tengdamamma, fyrir alla samveruna og ég veit að þú ert komin á góðan stað að eilífu.

Þín tengdadóttir,

Gróa.

Elsku amma, þegar ég lít til baka koma upp í hugann margar góðar minningar um þig. Mér eru sérstaklega minnisstæð þau skipti þegar ég fékk að gista hjá þér á Eiðistorginu en þá létum við okkur sko aldrei leiðast. Ég man að við umbyltum oft stofunni með því að færa rauða sófann þinn, settum svo teppi yfir hann og bjuggum til hús. Þar gátum við eytt fleiri klukkustundunum í alls kyns skemmtilega hluti, hvort sem það var bara spjall eða einhver leikur sem við fundum uppá. Einnig man ég eftir því þegar við Kristján komum til þín á Eiðistorgið rétt fyrir jólin og bjuggum til piparkökuhús. Mér fannst það ótrúlega skemmtilegt og ég held að þér hafi fundist það líka. Jólin verða mér líka alltaf minnisstæð en þú varst alltaf hjá okkur á Miðbrautinni á aðfangadag og það verður því líklega hálf-tómlegt að hafa þig ekki lengur með okkur þá. Ég er líka ákaflega þakkát fyrir það að þú skyldir hringja í mig á afmælisdaginn minn í síðustu viku og segjast vilja koma í kaffiboðið þó þú hefðir verið búin að ákveða það fyrr um daginn að koma ekki. Þetta voru síðustu stundirnar sem við áttum saman og þær eru mér einstaklega dýrmætar. Mér finnst það samt eitthvað svo einkennilegt að geta aldrei séð þig eða talað við þig aftur en þegar ég svipast um í íbúðinni minni þá ertu mér alltaf nálæg. Það er nefnilega svo margt sem minnir á þig eins og gamla borðstofuborðið þitt, öll þau glerlistaverk sem þú hefur búið til og svo rúmteppið sem þú prjónaðir handa mér. Það er núna í miklu uppáhaldi hjá Gumma því honum finnst svo gott að breiða það yfir sig þegar honum er kalt á nóttunni. Þú gafst mér líka einu sinni kistil í jólagjöf en þar geymi ég núna skartgripina sem þú gafst mér ásamt fleiri hlutum sem minna mig á þig. Ég er því afar þakklát fyrir þann tíma sem við fengum að vera með þér og ég vona að þú hafir það gott á nýja staðnum.

Edda Sif.

Elsku amma. Það var erfið stund á miðvikudaginn var er þú kvaddir þennan heim. Samstundis komu upp í hugann minningar um góðar samverustundir. Mér kærastar eru stundirnar sem við áttum á Eiðistorgi. Þangað kom ég, um nokkurra ára skeið, til þín að loknum skóla. Þar lærðum við saman og borðuðum áður en ég hélt á knattspyrnu- eða handknattleiksæfingar. Ég er þess fullviss að þú átt stóran þátt í velgengni minni á menntasviði og þá einkum áhuga mínum á sagnfræði. Á Eiðistorginu dróst þú upp margar athyglisverðar bækur á því sviði. Hins vegar varstu afar lunkin í að halda að mér námsbókunum þrátt fyrir að ég hefði ekki alltaf jafnmikinn áhuga á þeim. Við áttum eina hefð á föstudögum og var hún sú að snæða saman „París“. Ég vona að síðar meir getum við fengið okkur slíkan dýrindis ís þegar við verðum bæði södd lífdaga. Minningarnar eru ekki eingöngu bundnar við Eiðistorgið. Ég kom til þín endrum og eins á Vitatorgið þar sem við spjölluðum saman um málefni líðandi stundar. Helgarheimsóknirnar undanfarin misseri hafa líka verið skemmtilegar og vona ég að þú hafir haft jafngaman af knattspyrnunni og við feðgarnir. Eitt atvik, úr helgarheimsóknunum, rennur mér seint úr minni er við sátum saman og spiluðum Ólsen Ólsen. Þegar við höfðum spilað í drjúga stund dróst þú spil úr bunkanum, lagðir annað spil af hendi niður og sagðir „Ólsen“. Í kjölfarið, án þess að ég kæmist að, lagðir þú fimm tígulspil á borðið og sagðir svo „flöss“. Ég lagði ekki í fleiri rimmur enda greinilega viðvaningur í spilamennskunni í samanburði við þig. Ég vil að lokum þakka þér fyrir allar góðu stundirnar. Ég vona að þér líði vel á nýjum stað og að þú getir fylgst vel með þínum nánustu.

Kristján Þorvaldsson.