Nicolas Sarkozy
Nicolas Sarkozy
Eftir Kristján Jónsson kjon@mbl.is NICOLAS Sarkozy Frakklandsforseti hvatti í ávarpi sínu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í gær til þess að gerðar yrðu gagngerar umbætur á hinu alþjóðlega fjármálakerfi og gegnsæi aukið.

Eftir Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

NICOLAS Sarkozy Frakklandsforseti hvatti í ávarpi sínu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í gær til þess að gerðar yrðu gagngerar umbætur á hinu alþjóðlega fjármálakerfi og gegnsæi aukið. Forystumenn þeirra ríkja þar sem vandinn í fjármálaheiminum hefði mest áhrif ættu að hittast fyrir árslok og kanna hvaða lærdóma mætti draga af áföllunum að undanförnu. Forsetinn hvatti einnig Evrópusambandið til þess að mynda „efnahagssvæði sem ná myndi yfir meginlandið allt og sameina Rússland og Evrópu“.

Sarkozy sagði nokkrum stundum fyrr á kvöldverðarfundi í New York með leiðtogum í viðskiptalífi Frakklands og Bandaríkjanna að milljónir manna um allan heim óttuðust nú um sparifé sitt, óttuðust að missa húsnæði sitt. Þeir yrðu að fá skýr svör við spurningum sínum.

„Hver ber ábyrgð á þessum hrakförum? Vonandi verða hinir ábyrgu látnir svara til saka og þeim refsað,“ sagði forsetinn. Orðum hans var lítt fagnað á fundinum en þar voru gestir sem höfðu greitt 1.500 til 75.000 dollara fyrir að fá að taka þátt í veislunni.

George W. Bush Bandaríkjaforseti og menn hans reyndu í gær ákaft að fá þingið til að samþykkja sem fyrst tillögur Henry Paulson fjármálaráðherra um að verja allt að 700 milljörðum dollara til að bjarga fjármálafyrirtækjum landsins úr klípunni vegna undirmálslánanna á húsnæðismarkaðnum.

Margir þingmenn vilja setja hörð skilyrði og John McCain, forsetaefni repúblikana, hefur m.a. sakað gráðuga fjármálafursta í Wall Street um að hafa farið offari og átt sök á hamförunum. McCain hefur viðrað efasemdir um að fela Paulson einum vald til að ákveða hvernig verja skuli fénu.

Vill McCain að þriggja manna ráð hafi yfirumsjónina, skipað þeim Mitt Romney, keppinaut hans um tilnefningu sem forsetaefni, fjárfestingajöfrinum Warren Buffett og loks Michael Bloomberg, borgarstjóra í New York sem er vellauðugur. Bloomberg er utan flokka en Buffett er meðal ráðgjafa Baracks Obama, forsetaframbjóðanda demókrata.