Eftir Láru Ómarsdóttur lom@24stundir.

Eftir Láru Ómarsdóttur lom@24stundir.is

Fréttir af hrottalegu ofbeldi föður gagnvart þremur börnum sínum hafa vakið upp spurningar um úrræði fyrir börn sem sæta slíku ofbeldi en langan tíma getur tekið að fá tíma fyrir þau inni á stofnunum eða hjá sérfræðingum. 24 stundir settust niður með börnunum og fjölskyldu þeirra. Ekki verður greint frá nöfnum þeirra til að vernda hagsmuni barnanna.

Þriggja ára ofbeldi

Börnin sem um ræðir eru þrjú, á aldrinum níu til fimmtán ára. Þau voru fjarlægð af heimili föður síns í febrúar á þessu ári eftir að eitt þeirra sagði ættingjum sínum frá ofbeldi sem þau máttu sæta á heimili sínu. Ofbeldið hafði þá viðgengist í þrjú ár og fór versnandi með hverjum degi.

Móðir barnanna yfirgaf heimilið fyrir sjö árum en þá var hún farin að neyta fíkniefna. Faðirinn fór því einn með forræði barnanna og gekk uppeldið að sögn ættingja vel til að byrja með. Langvarandi deilur hans við barnsmóðurina höfðu hins vegar mikil áhrif á hann.

Heltekinn af hatri

,,Hatrið heltók hann smám saman,“ segir einn ættinginn sem ekki vill láta nafn síns getið. „Hann byrjaði að drekka ótæpilega og ástandið á heimilinu fór hríðversnandi. Börnin voru illa hirt, oftast skítug og ógreidd, mættu sjaldan í skólann og fengu lélega næringu.“ Fljótlega vaknaði grunur í skóla barnanna um að ekki væri allt með felldu á heimilinu. Barnaverndarnefnd var kölluð til og reynt var að styðja við bakið á föðurnum og fjölskyldunni. Börnin þögðu hins vegar yfir ofbeldinu allt þar til í febrúar á þessu ári að elsta barnið, sem er drengur, opnaði sig við fjölskylduna.

Brotnaði saman

„Hann var í heimsókn hjá mér og mér fannst hann eitthvað leiður. Ég spurði hann að því hvort það væri ekki allt í lagi og þá hreinlega brotnaði hann saman,“ segir einn ættingi drengsins. Hann segir drenginn þá hafa verið með áverka á líkamanum eftir hnífa sem faðirinn hafði kastað í hann.

,,Hann (faðirinn) átti kasthnífa og kastskífu sem hann hafði keypt í útlöndum. Svo stillti hann drengnum upp við kastskífuna og kastaði í áttina að honum. Drengurinn var með áverka eftir hnífana, meðal annars með skurð á læri.“

Ættinginn hafði samband við lögreglu sem hafði samband við barnaverndarnefnd. Ekkert var aðhafst í málinu frekar þann daginn og börnin send heim til föður síns. „Börnin voru lafhrædd þessa nótt,“ segja ættingjarnir. „Þau gátu ekkert sofið og drengurinn fór ekki í skólann daginn eftir. Þegar barnaverndarnefnd kom að sækja börnin fór drengurinn til dyra og var létt, hann brosti og sagði: Ég veit hvað þið eruð að gera hérna.“ Börnin voru flutt til ömmu sinnar og afa þar sem þau búa nú en faðirinn hefur verið sviptur forsjá þeirra tímabundið.

Erfið skýrslutaka

Á vordögum voru börnin boðuð í skýrslutöku hjá Héraðsdómi Reykjavíkur. „Það var þeim mjög erfitt og þau tala enn um það,“ segja ættingjarnir og börnin samsinna því. Þeir segja skýrslutökurnar hafa verið langar og börnin hafu verið hrædd við rónana sem sátu á tröppunum fyrir utan þegar þau fóru inn „Þau tala enn um það þegar þau fóru í héraðsdóm, svo erfið lífsreynsla var þetta.“

Við skýrslutökur sögðu börnin frá því hrottalega líkamlega og andlega ofbeldi sem þau máttu sæta á heimilinu. Auk þess að beita eggvopnum á son sinn lagði faðirinn oft hendur á þau og hótaði þeim meðal annars með loftskammbyssu sem hann geymdi í svefnherbergi sínu. Það þurfti sífellt minna til að reita hann til reiði og í einu bræðiskastinu aflífaði hann gæludýr barnanna fyrir framan yngsta barnið sem þá var sjö ára.

„Börnin voru miður sín og hafa enn ekki jafnað sig,“ segir einn ættingi barnanna.

Of langur tími

Ættingjarnir eru ósáttir við hve langan tíma það hafi tekið að fá sálfræðihjálp fyrir börnin. „Í raun var það fyrir harðfylgi barnaverndarnefndar sem aðstoð fékkst loks en engin sérstök úrræði eru til fyrir börn sem beitt hafa verið ofbeldi. Ættingjarnir hafa því sjálfir þurft að sækja alla aðstoð en taka fram að barnaverndarnefnd sveitarfélagsins sem börnin áttu heima í hafi unnið þrekvirki. „Það var fyrir þeirra tilstilli sem börnin fengu undanþágu til að sækja aðstoð í Barnahús.“ Fjölskyldan segist öll orðin afar þreytt og nú sé mikilvægast að hjálpa börnunum að komast yfir hroðaverkin. „Við skiljum bara ekki af hverju rannsókn lögreglu tekur svona langan tíma.“

Hvað föðurinn varðar segja þau: ,,Hann er bara fárveikur. Vitnar stöðugt í Biblíuna og Hitler og talar mikið um [George W.] Bush og hryðjuverk.“ Þau segja ekkert þýða að reyna að tala við hann og þegar minnst sé á hvað hann hafi gert börnunum segist hann ekkert muna. „Við verðum bara að komast út úr þessu og einbeita okkur nú að því að byggja fjölskylduna upp á nýjan leik. Loksins eru börnin að fá þá hjálp sem þau þurfa en við rákumst alls staðar á dyr til að byrja með vegna þess að þau höfðu ekki verið beitt kynferðislegu ofbeldi. Með því að segja okkar sögu vonumst við til að þessi mál verði tekin til gagngerrar endurskoðunar til hagsbóta fyrir önnur börn sem eru í svipuðum sporum. Því vissulega viðgengst ofbeldi inni á heimilum, það er bara lítið sem ekkert talað um það.“

Í hnotskurn
Barnahús sinnir málefnum barna sem sætt hafa kynferðislegri áreitni eða ofbeldi. Sértæk úrræði fyrir börn sem sæta líkamlegu ofbeldi eru fá Um 250 tilkynningar bárust Barnavernd Reykjavíkur um grun um líkamlegt ofbeldi gegn börnum á síðasta ári