Hættuleg? Starfsmaður í kínversku mjólkurbúi.
Hættuleg? Starfsmaður í kínversku mjólkurbúi. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Kristján Jónsson kjon@mbl.is FYRIR um það bil ári var kínverska mjólkurvörufyrirtækið Sanlu Group Co. hyllt í fjölmiðlum landsins og sagt vera til fyrirmyndar. Nú er orðið ljóst að minnst 53.

Eftir Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

FYRIR um það bil ári var kínverska mjólkurvörufyrirtækið Sanlu Group Co. hyllt í fjölmiðlum landsins og sagt vera til fyrirmyndar. Nú er orðið ljóst að minnst 53.000 börn hafa veikst vegna þess að þeim var gefin menguð mjólk frá Sanlu. Fjögur eru þegar látin og liðlega hundrað að auki sögð í lífshættu. Nokkur grannríki Kína, þ. á m. Japan og Singapúr, Taívan og Víetnam, hafa þegar bannað eða heft mjög innflutning á matvælum frá landinu.

Kínversk framleiðslufyrirtæki hafa áður orðið ber að því að selja hættulega vöru. Skemmst er að minnast leikfanga með varasamt blýinnihald og gæludýrafóðurs sem reyndist innihalda melamin, sama efnasambandið og nú hefur fundist í mjólkurvörum Sanlu.

Mjólkin mun hafa komið frá alls 22 mjólkurbúum sem voru í viðskiptum við Sanlu. Frásagnir berast nú af kínverskum bændum sem í örvæntingu sinni fella kýrnar og hella niður mjólk vegna þess að mjólkurbúin vilja ekki lengur taka við henni. Léleg vara er alltaf slæm fyrir þá sem vilja hasla sér völl á mörkuðum. En fátt þykir verra en að valda börnum skaða. Þau veiktust vegna græðgi manna sem skeyttu ekki um heilsu neytenda en yfirvöld þurfa einnig að svara til saka. Vandinn er að ráðamenn í Peking hafa oft sáralitla stjórn á því sem gerist úti í héruðnum, þar fara menn sínu fram og margir embættismenn hika ekki við að misnota aðstöðu sína til að hagnast á mútum og annarri spillingu.

Hagvöxturinn í Kína er svo hraður að eftirlitsstofnanir ráða ekki við neitt. Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína, hefur vissulega beðið landsmenn auðmjúklega afsökunar og heitið umbótum en það dugar skammt. Trúverðugleiki stjórnkerfisins í Kína hefur beðið alvarlegan hnekki, foreldrar eru ævareiðir og yfirmaður gæðaeftirlits í landinu var látinn taka pokann sinn á mánudag. Hræðslan breiðist stöðugt út enda þurrmjólk notuð í ýmsum vörum.

„Viðskipti með mjólk eru í grundvallaratriðum stjórnlaus,“ er haft eftir landbúnaðarráðherra Kína, Sun Zhengcai, á vefsíðu ráðuneytis hans. Nýsjálensk fyrirtæki eiga 43% hlut í Sanlu og komust að því að melamin var í vörunum. Helen Clark, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, segir að héraðsembættismenn í Kína hafi ekki gert neitt í málinu fyrr en stjórn hennar hafði beint samband við ráðamenn í Peking. Og embættismaður í Shijiazhuang, en þar er Sanlu með aðalstöðvar, hefur viðurkennt að hafa vitað um vandann í meira en mánuð áður en nokkuð var aðhafst.

S&S

Hvað er melamin?

Ódýrt efnasamband úr köfnunarefni, vetni og kolefni, fundið upp á 19. öld. Hefur verið notað í margvíslegum plastvörum, ekki eitrað en getur í miklu magni valdið skemmdum á nýrum. Er notað af óprúttnum seljendum sem fylliefni í mjólk sem þynnt hefur verið með vatni. Eiginleikar efnisins valda því að við mælingar virðist þurrmjólk fyrir börn vera næringarrík þótt búið sé að þynna hana.

Er bara mjólkin hættuleg?

Framleiðendur í Japan, Ástralíu og víðar eru önnum kafnir við að rannsaka varning sinn. Kínverskt mjólkurduft gæti hafa læðst í hana enda ódýrt. Bandarísku fyrirtækin Kraft Foods, Hershey og Dove, fullvissuðu fólk um að engin kínversk mjólk væri notuð þar á bæ. Talsmaður Mars-súkkulaðiframleiðandans svaraði ekki fyrirspurnum AP-fréttastofunnar sem vildi fá að vita hvort vörur hefðu verið afturkallaðar.