Magnús Bergþórsson fæddist á Mosfelli í Mosfellssveit 14. janúar 1924. Hann andaðist í Danmörku 11. september síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Bergþór Njáll Magnússon frá Mosfelli, f. á Bergþórshvoli í V-Landeyjahreppi í Rangárvallasýslu 29. ág. 1900, d. 5. sept. 1990 og Ragna Sigríður Ingibjörg Björnsdóttir, f. í Neskaupstað 22. júlí 1899, d. 21. júní 1976. Systkini eru a) Hulda, f. 16. nóv. 1922, d. 17. sept. síðastliðinn, b) Björn, f. 14. sept. 1926, d. 24. júlí. 2006, maki Anny Bergþórsson, c) Ragnhildur, f. 27. mars 1928, maki Atli Elíasson, d) Hreinn, f. 24. maí 1931, d. 14. júl. 1986, e) Konráð, f. 15. des. 1934, d. 25. sept. 2000, og f) Gunnar, f. 12. feb. 1940.

Hinn 26. mars 1953 kvæntist Magnús Þórunni Jónsdóttur, f. í Skipholti í Hrunamannahreppi í Árnessýslu 19. nóv. 1924. Börn þeirra eru a) Jón byggingartæknir í Danmörku, f. í Reykjavík 3. feb. 1955, b) Bergþór löggiltur raftæknir í Danmörku, f. í Reykjavík 30. ág. 1958, og c) Hjálmar tónlistarkennari í Danmörku, f. í Keflavík 13. sept. 1960.

Magnús lauk stúdentsprófi frá MR 1945 og prófi í raforkuverkfræði frá NTH í Þrándheimi 1951. Hann starfaði sem verkfræðingur hjá skrifstofu raforkumálastjóra 1951–52. Kennari við rafmagnsdeild Vélskólans í Reykjavík 1952–53. Verkfræðingur hjá byggingafélaginu Metcalfe-Hamilton á Keflavíkurflugvelli 1953–54. Verkfræðingur hjá Íslenskum aðalverktökum sf. 1954–55. Verkfræðingur hjá flugher Bandaríkjanna 1955–60. Verkfræðingur hjá ráðgjafafyrirtækinu Birch & Krogbo í Kaupmannahöfn 1961–89.

Útför Magnúsar fer fram í Danmörku í dag.

Þær komu á óvart fréttirnar af andláti Magnúsar frænda. Við höfðum búist við að sjá hann fljótlega þar sem ætlun hans hafði verið að fylgja systur sinni Huldu til grafar, en hún hafði barist lengi við erfið veikindi og lést síðan sex dögum á eftir bróður sínum.

Magnús flutti 1961 til Danmerkur með fjölskyldu sína. Þá var Björn bróðir hans, giftur Anny Bergþórsson, búsettur í Danmörku og nutu fjölskyldur þeirra margra gleðistunda saman.

Þrátt fyrir margra ára búsetu í Danmörku var Magnús alltaf nálægur okkur á Íslandi, þar sem hann hringdi alltaf minnst tvisvar í viku til systur sinnar, Ragnhildar, til að fá fréttir af sínum nánustu.

Magnús hafði alltaf gaman af að koma til Íslands og njóta fjölskylduboðanna með allri fjölskyldunni samankominni. Hann hafði líka gaman af að koma út í Viðey og rifja upp æskuminningar þaðan, en amma og afi bjuggu þar frá 1928-1943 með börnin sín sjö.

Magnús var mikill húmoristi og nutum við þess oft í samræðum okkar við hann hve auðvelt hann átti með að sjá hinar skoplegu hliðar lífsins og glettnin geislaði frá honum.

Magnús og Þórunn voru líka höfðingjar heim að sækja. Foreldrar mínir Ragnhildur og Atli fóru nokkrum sinnum til þeirra í Danmörku, höfðu mjög gaman af, og komu jafnan endurnærð og hress heim með skemmtilegar sögur og minningar í farteskinu.

Elsku Þórunn, Jón, Bergþór, Hjálmar, Janna, Jakob og Milena, við sendum ykkur öllum okkar innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Magnúsar frænda.

Valdís og fjölskylda.