Eftir Björgu Evu Erlendsdóttur beva@24stundir.is „Það er greinilegt að verið er að reyna að efna til ágreinings í flokknum,“ segir Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins. „Deilt er á hvernig þingflokkurinn vinnur.

Eftir Björgu Evu Erlendsdóttur

beva@24stundir.is

„Það er greinilegt að verið er að reyna að efna til ágreinings í flokknum,“ segir Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins. „Deilt er á hvernig þingflokkurinn vinnur. Því verður aldrei ráðið utan úr bæ með ályktunum um að menn geri þetta eða hitt. Farið var með mál inn í miðstjórn sem ekki á heima þar að mínu mati. Þar finnst mér að flokksfélagar mínir séu á rangri braut.“

Nýtt afl eða önnur öfl

Guðjón svarar varlega spurningu um hvort Jón Magnússon og hans menn hafi vakið deilurnar. „Jón er mjög náinn samstarfsmaður félaga okkar í Reykjavík sem tala um lýðræðishalla í flokknum. Landsbyggðarmenn hafi of mikil áhrif sem ég tel ekki vera,“ segir Guðjón. Honum finnst sérstaklega ámælisvert að alltaf sé vegið að persónu Kristins H. Gunnarssonar í þessum erjum. Hann segir ekkert nýtt að Kristinn sé málafylgjumaður, það hafi allir vitað. „Kristinn hefur fylgt stefnumálum Frjálslynda flokksins en þar er rúm fyrir skoðanamun. Jón Magnússon hefur líka sjálfstæðar skoðanir, ekki síður en Kristinn. Ég treysti báðum vilji þeir vinna fyrir flokkinn.“

Vill samvinnu allra

Og Guðjón treystir Magnúsi Þór Hafsteinssyni, aðstoðarmanni sínum og varaformanni flokksins, þótt Magnús treysti ekki Kristni. „Það kastaðist í kekki milli þeirra vegna innflytjendamála, en ég tel að Magnús Þór hafi staðið sig ágætlega á Akranesi. Hann vildi umræður, en enginn var á móti flóttamönnum. Það var Sjálfstæðisflokkurinn sem beitti „dirty“ pólitík í bæjarstjórn Akraness og þess vegna fór meirihlutinn. Guðjón telur alla Frjálslynda geta unnið saman ef þeir vilja, á næstu dögum reyni á þann vilja. Mál þingflokksins verða hinsvegar rædd á næsta fundi hans. „Ég ætla ekkert að segja um niðurstöðuna, við ræðum málin í okkar hóp, en hingað til hef ég ekki lagt fram neina tillögu um að Kristinn hætti sem þingflokksformaður. “

Hafi menn viljandi kveikt elda til að komast að völdum telur formaður Frjálslynda flokksins að það komi þá í ljós á næstu dögum, en hann vonar að svo sé ekki og að afföll úr flokknum verði ekki teljandi.

Óskiljanleg árás

Þótt bæði formaður og ritari hafi lagt hart að sér við að halda flokknum saman varð tillaga miðstjórnar um brottvikningu Kristins til þess að draga fólk í fylkingar. Kolbrún Stefánsdóttir ritari vill sátt og frið og standa utan allra deilna. Engu að síður greiddi Kolbrún atkvæði gegn tillögu miðstjórnar um að víkja Kristni úr stóli þingflokksformanns. Hún er sammála Guðjóni Arnari Kristjánssyni um að slík tillaga hefði aldrei átt að koma fram í miðstjórninni. „Ég styð formann Frjálslynda flokksins,“ segir Kolbrún. „Ég hef ekki lýst stuðningi við einn frekar en annan í þeim óróa sem ríkir og hefur kristallast í mér óskiljanlegum árásum á Kristin H. Gunnarsson sem hefur unnið af skörungsskap fyrir flokkinn og fylgt stefnu hans.“
Í hnotskurn
Tíu ár eru frá því Frjálslyndi flokkurinn var stofnaður. Þetta er þriðji Frjálslyndi flokkurinn í sögu Íslands. Sá fyrsti var stofnaður 1926 og lifði í 3 ár, en Frjálslyndi flokkurinn sem stofnaður var 1973 varð aðeins eins árs.