Mike Mullen
Mike Mullen
RÁÐHERRA varnarmála í Afganistan, Abdul Rahim Wardak, segir að hafnar séu viðræður við Pakistana um að stofna sérstakt herlið til að berjast gegn liðsmönnum talíbana og al-Qaeda á landamærum ríkjanna tveggja.

RÁÐHERRA varnarmála í Afganistan, Abdul Rahim Wardak, segir að hafnar séu viðræður við Pakistana um að stofna sérstakt herlið til að berjast gegn liðsmönnum talíbana og al-Qaeda á landamærum ríkjanna tveggja. Ætlunin er að Bandaríkjamenn verði fengnir til að aðstoða umræddan herafla, að sögn vefsíðu blaðsins Guardian.

Michael Mullen, aðmíráll og forseti bandaríska herráðsins, segir að sérhver aðgerð sem miði að því að efla öryggi á landamærunum sé skref í rétta átt.

„Mér finnst það jákvætt að afganskur leiðtogi skuli tala um slíka hugmynd,“ sagði Mullen en bætti við að eins og venjulega yrði erfiðast að semja um smáatriðin. Mullen hefur hleypt af stokkunum nýrri hernaðaráætlun í baráttunni gegn hryðjuverkamönnum og spannar hún nú bæði Afganistan og Pakistan.

Bandaríkjamenn hafa síðustu vikurnar gert árásir á bækistöðvar hryðjuverkamanna í fjallahéruðum Pakistans á landamærunum og segjast Pakistanar ekki munu líða slíka atlögu gegn fullveldi landsins. kjon@mbl.is