Erlendir fjárfestar í íslenskum fyrirtækjum hafa hingað til ekki verið fyrirferðarmiklir. Kaup Mohammeds Bin Khalifa Al-Thanis frá Katar á 5,01% hlut í Kaupþingi teljast því til tíðinda, ekki síst á tímum landskjálfta í bankakerfi heimsins.

Erlendir fjárfestar í íslenskum fyrirtækjum hafa hingað til ekki verið fyrirferðarmiklir. Kaup Mohammeds Bin Khalifa Al-Thanis frá Katar á 5,01% hlut í Kaupþingi teljast því til tíðinda, ekki síst á tímum landskjálfta í bankakerfi heimsins.

Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings, segir í Morgunblaðinu í gær að nú sé litið svo á að tækifæri séu til fjárfestinga vegna þeirra miklu lækkana, sem orðið hafi. Gengið endurspegli ekki raunvirði bankanna.

Al-Thani hefur einnig keypt 12,6% hlut í íslenska félaginu Alfesca. Þá hafa erlendir fjárfestar keypt hlut í Össuri, en dæmin eru ekki miklu fleiri.

Líklegt er að Al-Thani kaupi ekki bara hlut í Kaupþingi vegna þess að gengið er lágt. Hann hlýtur einnig að telja að það muni hækka. Að því leyti er rétt að halda því fram að kaupin séu traustsyfirlýsing fyrir Kaupþing – og gætu áhrifin af þeim reyndar smitast yfir á hina bankana.

Íslendingar hafa á undanförnum árum verið duglegir að festa fé í útlöndum og hafa þau umsvif verið kölluð útrás. Íslenskt efnahagslíf hefði líka gott af innrás. Fjárfestingar að utan myndu ýta undir fjölbreytileika í íslensku efnahagslífi, sem má alveg við því að persónum og leikendum fjölgi. Slíkar fjárfestingar munu hins vegar ekki eiga sér stað af sjálfum sér. Það sést á lýsingum á aðdragandanum á því að Al-Thani keypti hlutinn í Kaupþingi. Þar koma við sögu Ólafur Ragnar Grímsson forseti, Dorrit Moussaieff forsetafrú, Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra og Ólafur Ólafsson, vinur Al-Thanis og einn eigenda Eglu, annars stærsta hluthafa Kaupþings. En þessi kaup vekja athygli og ættu að auðvelda næstu skref.