Fiðluleikarinn Sigurbjörn Berharðsson þegar sagt var frá starfi hans með Pacifica í mars síðastliðnum.
Fiðluleikarinn Sigurbjörn Berharðsson þegar sagt var frá starfi hans með Pacifica í mars síðastliðnum. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þögn um tónsnillinga“ var fyrirsögn viðtals við Jónas Ingimundarson píanóleikara í 24 stundum sl. föstudag.

Þögn um tónsnillinga“ var fyrirsögn viðtals við Jónas Ingimundarson píanóleikara í 24 stundum sl. föstudag. Jónas heldur því þar fram að ungt tónlistarfólk „[fái] aldrei neina athygli á Íslandi“ og að „fjölmiðlarnir dragi lappirnar“ í umfjöllun um þennan hóp. Jónas segir einnig skorta á umræðu um fleiri þætti tónlistarlífsins og rekur t.d. ekki minni til þess að rætt hafi verið við aðalstjórnanda Sinfóníuhljómsveitar Íslands „í fjölmiðlum á Íslandi“.

Þótt ég treysti mér ekki til að dæma um réttmæti alhæfinga Jónasar um umfjöllun annarra miðla en Morgunblaðsins er ljóst að fullyrðingar hans vega alvarlega að menningarstefnu þess sem fjölmiðils er kostar miklum fjármunum, mannskap og metnaði í menningarumfjöllum á hverjum einasta degi. Þannig má telja undarlegt að Jónas reki ekki minni til þess að rætt hafi verið við aðalstjórnanda Sinfóníuhljóm-sveitarinnar í íslenskum fjölmiðl-um því snögg fletting í greinasafni Morgunblaðsins dregur fram í dagsljósið þrjú ítarleg viðtöl við Rumon Gamba auk fjölmargra smærri greina.

Ef vikið er að aðalumkvörtunarefni Jónasar, meintu metnaðarleysi gagnvart ungu tónlistarfólki, kemur í ljós að Jónas tekur sér beinlínis skáldaleyfi í fullyrðingum sínum. Hann tekur dæmi af Elfu Rún Kristinsdóttur fiðluleikara sem hann segir ekki hafa notið sannmælis í fréttaflutningi þar sem það tók Ríkisútvarpið „þrjár vikur“ að segja frá því er hún vann Bach-fiðlu-keppnina víðfrægu í Leipzig, sem vel má vera satt. En Morgun-blaðið greindi fyrst allra frá því að hún hefði komist í undanúrslit í þessari keppni (13.07.06) og tók þá við hana fréttaspjall. Síðan var sagt frá því á útsíðu strax daginn eftir að hún hefði unnið keppnina (15.07.06). Loks kom Elfa Rún í langt og ítarlegt viðtal af þessu tilefni við heimkomuna til Íslands (03.08.06). Morgunblaðið sagði einnig frá því er hún fékk styrk úr sjóði Önnu Karólínu í Salnum (04.09.06), greindi frá því á útsíðu er hún fékk verðlaun úr Pro Europa-sjóðnum (19.03.07) og tók við hana viðtal er hún spilaði með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands (19.03.08). Framangreint er þó engan veginn öll umfjöllun um þessa framúrskarandi tónlistarkonu; færslur um hana skipta tugum í greinasafninu.

Jónas teflir einnig fram nafni Stefáns Höskuldssonar flautuleikara og heldur því fram að enginn hafi sagt frá stöðuveitingu hans í Metropolitan-óperunni. Morgun-blaðið sagði strax frá því er Stefán var ráðinn í hljómsveitina (25.03.04) og síðan á útsíðu er hann var ráðinn fyrsti flautuleikari (01.09.07). Stefán var einnig í ítarlegu viðtali um list sína er hann lék með Sinfóníuhljómsveit Íslands (01.06.06).

Þegar hér er komið í uppflettingum í greinasafninu fer mann að gruna að Jónas hafi ekki einungis látið undir höfuð leggjast að lesa menningarpakka Morgunblaðsins heldur einnig menningarfréttir á útsíðum.

Enn tínir Jónas til nöfn og spyr næst hver viti hvað Kolbeinn Ketilsson sé að gera – telur engan vita af því þótt hann sé að syngja Wagner úti um allt. Í Lesbók Morgunblaðsins var farið vítt og breitt yfir feril Kolbeins í löngu viðtali í júlímánuði fyrir rúmu ári (21.07.07). Þar áður var þó löngu búið að segja frá því á útsíðum og í viðtali á menningarsíðum að hann væri að syngja Tristan í París (04.07.06), og að hann syngi í Medeu og Ariadne á Grikklandi (14.07.07) fyrir nú utan að raktir hafa verið góðir dómar sem hann hefur fengið, svo sem í Opernglas (07.05.08).

Þess bera að geta að Morgunblaðið hefur fjallað ítarlega bæði með viðtölum og fréttaflutningi á útsíðum og menningar-síðum um fjölmarga aðra tónlistarmenn sem Jónas nefnir ekki, svo sem Dísellu Lárusdóttur, er hún komst í úrslit í Metropolitan-keppninni og fékk starfssamning í kjölfarið, um Sigurbjörn Bernharðsson og vegferð hans með Pacifica-kvartettinum og Víking Heiðar Ólafsson, svo einhverjir séu nefndir. Sigur Víkings Heiðars í einleikarakeppni Juilliard í New York rataði á útsíður, sömuleiðis umfjöllun um það sem gagnrýnandi taldi vera „fullkomna tónleika“ hans í Salnum, auk þess sem í greinasafninu má finna ein fjögur löng viðtöl frá síðustu misserum við þann unga tónlistarmann um líf hans og leik, auk fjölmargra annarra smærri greina.

Gagnrýni um tónleika alls þessa framsækna unga fólks er ekki talin hér með. Sú þögn fjölmiðla sem Jónas segir ríkja um tónsnillinga þjóðarinnar í „klassíska geiranum“ eins og hann orðar það hlýtur því að teljast í meira lagi hávær þegar kemur að fjölmiðlinum Morgunblaðinu – í það minnsta er hún í hrópandi ósamræmi við þær fullyrðingar hans sem hér hafa verið raktar.

Tölfræði sem sú er hér er borin á borð er auðvitað ekkert sérlega áhugaverð. Nema fyrir þær sakir að fullyrðingar eins og Jónas lætur hafa eftir sér í veglegri blaðagrein eru svo algengar þegar kemur að umræðu um menningarumfjöllun. Jónas, eins og svo margir aðrir, telur „klassíska geirann“ hafa orðið algjörlega undir þótt hann segist reyndar ekki flokka músík þannig – hún sé annað hvort góð eða vond.

En fyrst hann flokkar ekki, hvað á hann þá við? Er það ekki umfjöllun um klassíska tónlist þegar sagt er frá unghljómsveitinni Ísafold innan um aðrar fréttir af ungu fólki? Er það ekki umfjöllun um klassíska tónlist ungs fólks þegar rætt er við stúlkurn-ar í Wonderbrass, sem allar eru meira og minna klassískt þjálfaðar, þótt þær hafi farið í tónleikaferðalag með tónskáldinu og poppstjörnunni Björk? Jónas telur „lággróðurinn í músíkinni stundum svo kæfandi að blómin nái ekki að blómstra sem skyldi“ og að „skussar“ séu verðlaunaðir. Hann spyr hvers vegna „fólk ætti að leggja á sig áratuga puð við að læra söng eða á hljóðfæri ef hægt er að verða heimsfrægur fyrir að kunna ekki neitt“.

Listir samtímans eru þess eðlis að engin leið er að dæma um listfengi fólks eftir því hvernig það er þjálfað eða hversu lengi það hefur verið í skóla. Klassísk þjálfun Rachel Barton Pine er heill-andi, en Tom Waits verður seint verðlaunaður fyrir raddfegurð þótt fáir deili um snilli hans. Ekki þarf mikla kunnáttu í hljóðfæraleik til að flytja tónverk Johns Cage, 5'33'', þótt flestir myndu telja það til „klassískra“ tónbókmennta – Philip Glass hefur unnið bæði fyrir sinfóníuhljómsveitir og poppmarkaðinn. Í öllu falli er ljóst að hvað Morgun-blaðið varðar er tæpast fjallað eins ítarlega um neina listgrein og tónlist – af öllu tagi. Á síðum þess er ekki litið svo á að „lággróður“ kæfi „blómin“ heldur ereinfaldlega reynt að sjá til þess að öll flóran njóti sín. Þannig endurspeglar umfjöllunin samtíma sinn; samtíma sem einkennist af samruna, samþættingu og - ekki síst meðal yngstu kynslóðarinnar - samstöðu um fjölbreytileika listanna. fbi@mbl.is

Fríða Björk Ingvarsdóttir