Ánægð New York hefur upp á margt að bjóða og oft ókeypis skemmtun sem fjölskyldan nýtti sér vel í sumar.
Ánægð New York hefur upp á margt að bjóða og oft ókeypis skemmtun sem fjölskyldan nýtti sér vel í sumar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Pálín Dögg Helgadóttir og Einar Örn Björgvinsson eyddu síðastliðnu sumri í New York þar sem Pálín var í starfsnámi hjá Sameinuðu þjóðunum eftir að hafa búið ár á Englandi.

Eftir Völu Ósk Bergsveinsdóttur

Síðastliðið haust settist Pálín Dögg Helgadóttir á skólabekk í Bradford á Englandi og hóf meistaranám í friðargæslufræðum (Peace Studies and Conflict Resolution) en hún var ein af 60 manns til að hljóta friðarstyrk Rotary á síðasta ári. Starfsnámið í New York var hluti af styrknum sem Rotary veitti henni.

„Ég starfaði í friðargæsludeild Sameinuðu þjóðanna,“ útskýrir hún. „Deildin mín sér um að móta stefnu og útbúa námsefni fyrir friðargæsluliða. Um það leyti sem ég byrjaði í júní var farið af stað með endurskoðun á öllu námsefninu. Mitt starf í sumar var að styðja við þá vinnu og þ.ám. safna fræðslugögnum.“

Hún segir starfsnámið hafa verið spennandi og lærdómsríkt og sérstaklega gaman að fylgjast með hvað margar deildir innan Sameinuðu þjóðanna koma að verkefnum stofnunarinnar. „Það sem kom mér mest á óvart er hversu marga þætti þarf að hafa í huga við eitt einstakt verkefni og svo sú pólitík sem spilar inn í,“ segir Pálín.

Þrír mánuðir eins og ein helgi

Á meðan Pálín sinnti náminu hugsaði Einar Örn Björgvinsson, maðurinn hennar um heimilið og dótturina Steineyju Lilju sem var nýfædd þegar fjölskyldan flutti til Englands í fyrra. Í New York höfðu feðginin nóg að gera en auk þess að njóta tímans með Steineyju Lilju vann Einar að BA-ritgerð sinni í guðfræði við Háskóla Íslands. Þá fór hann á námskeið í NLP-fræðum í New York í sumar.

„NLP er í grunninn sálfræðilegs eðlis. Mest er það notað við að hjálpa fólki að breyta neikvæðum hegðunarmynstrum í jákvæð og bæta þar með líf fólks til hins betra,“ útskýrir Einar. „NLP er notað víðar en í sálfræðinni, þ.ám. í samskiptatækni, sveigjanleika og til læra að nema fólk og umhverfi betur. Það hefur því t.d. verið nýtt mikið í viðskiptalífinu.“ Á námskeiðinu, sem var fjórar vikur, kynntist Einar fólki úr ýmsum áttum og segir hann námið hafa verið mjög fræðandi og skemmtilegt.

Nú að New York-dvölinni lokinni segja Pálín og Einar sumarið hafa liðið allt of fljótt. „Þrír mánuðir liðu eins og ein helgi,“ segir Einar. Pálín bætir við að borgin hafi upp á svo margt að bjóða alla daga vikunnar.

Hverfið sem fjölskyldan bjó í var frekar barnvænt og nóg er af almenningsgörðum í borginni þar sem Steiney Lilja gat leikið sér að vild. „Við nýttum tímann vel. Fórum t.d. í messu í Spænska Harlem-hverfinu og á útileiksýningar í görðum,“ segir Pálín.

Eftir viðburðaríkt sumar er fjölskyldan komin heim til Íslands en Pálín heldur fljótlega aftur út til Englands og klárar lokaritgerðina sína í meistaranáminu en hún hyggst útskrifast í desember. Á meðan verða feðginin, Einar og Steiney Lilja, heima á Íslandi þar sem afar og ömmur, frændur og frænkur fá loks að fylgjast úr návígi með litlu stelpunni sem á sínu fyrsta ári var heldur betur á faraldsfæti um heiminn.

Pálín og Einar mæla með:

» Max Brenner er himnaríki súkkulaðiunnandans þar sem m.a. er hægt að fá dásamlegt heitt súkkulaði og súkkulaðihristing. www.maxbrenner.com

» IKEA Water Taxi. Ókeypis ferja sem siglir frá Pier 11 á Manhattan yfir til Ikea í Brooklyn. Frábært útsýni og auðvitað sænskar kjötbollur.

www.ikea.com/us/en/store/brooklyn

» Le Scandal er „burlesque“-skemmtun á Cutting Room-barnum sem leikarinn Chris Noth (Hr. Stór í Beðmálum í borginni) á og rekur. Sverðgleypar, sirkus, söngur og dans.

www.lescandal.com