[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Frey Rögnvaldsson freyr@24stundir.is Lögregla í Dóminíska lýðveldinu rannsakar nú dauða 29 ára gamallar íslenskrar konu, Hrafnhildar Lilju Georgsdóttur, sem fannst látin á sunnudagskvöld á hóteli á ferðamannastaðnum Cabarete.

Eftir Frey Rögnvaldsson

freyr@24stundir.is

Lögregla í Dóminíska lýðveldinu rannsakar nú dauða 29 ára gamallar íslenskrar konu, Hrafnhildar Lilju Georgsdóttur, sem fannst látin á sunnudagskvöld á hóteli á ferðamannastaðnum Cabarete. Málið er rannsakað sem ofbeldisglæpur en ummerki á vettvangi og áverkar á líki Hrafnhildar benda til að hún hafi verið myrt.

Hrafnhildur starfaði sem hótelstýra á íbúðahótelinu Extreme á Cabarete og bjó jafnframt þar. Hún hafði verið í landinu frá því um mitt sumar og hugðist dvelja þar fram yfir áramót. Lík hennar fannst í herbergi hennar klukkan 14.20 á mánudag að því er kemur fram í dagblaðinu El Caribe. Miklir áverkar voru á líkinu, hnífstungur og meiðsli á höfði eftir barefli.

Forgangsmál að fá upplýsingar

Íslenska utanríkisráðuneytið fékk tilkynningu um málið um miðnætti á mánudagskvöld og að sögn Urðar Gunnarsdóttur, upplýsingafulltrúa ráðuneytisins, var strax haft samband við ræðismann Íslands í Dóminíska lýðveldinu. „Við höfum haft samband út og það er forgangsmál að fá eins greinargóðar upplýsingar og hægt er sem allra fyrst,“ sagði Urður.

Vilhjálmur Gíslason, lögreglufulltrúi hjá alþjóðadeild ríkislögreglustjóra, sagði í samtali við 24 stundir að þegar hefði verið haft samband við skrifstofu Interpol í Santo Domingo, höfuðborg Dóminíska lýðveldisins, þegar málið kom inn á borð alþjóðadeildarinnar. „Við lögðum mikla áherslu á að okkur yrði haldið upplýstum um gang mála jafn óðum og rannsókn vindur fram. Nú bíðum við bara eftir upplýsingum að utan. Þar til við fáum þær getum við ekki staðfest neitt nema að lögreglan er að rannsaka málið.“ Upplýsingar um gang rannsóknarinnar höfðu ekki borist þegar 24 stundir fóru í prentun í gær. Enginn hafði þó verið handtekinn í tengslum við málið.