„VIÐ ERUM í stöðugum átökum, ekki líkamlegum en það er vissulega sótt að okkur. Þá sérstaklega í snyrtivörum,“ segir Gunnar Ingi Sigurðsson, framkvæmdastjóri Hagkaupa.

„VIÐ ERUM í stöðugum átökum, ekki líkamlegum en það er vissulega sótt að okkur. Þá sérstaklega í snyrtivörum,“ segir Gunnar Ingi Sigurðsson, framkvæmdastjóri Hagkaupa. Hann merkir mikla aukningu þjófnaðar í verslunum sínum og segir ljóst að þjófarnir séu stórtækari. Sama segir framkvæmdastjóri ELKO en báðir hafa þeir sagt þjófunum stríð á hendur. „Ef við sjáum tvo iðnaðarmenn, sérstaklega af erlendu bergi brotna, standa inni í snyrtivörudeild þá allt að því vísum við þeim út,“ segir Gunnar.

Unnið að viðbrögðum

Í Morgunblaðinu í gær var rætt við menn innan fjármunabrotadeildar lögreglu höfuðborgarsvæðisins. Kom fram að þýfið hreinlega flæddi út af skrifstofum deildarinnar. Eitthvað af því kemur úr fyrrnefndum verslunum.

„Við erum að tapa tugum milljóna króna á ári sem við rekjum til þjófnaðar,“ segir Gestur Hjaltason, framkvæmdastjóri ELKO. „Óneitanlega hefur þetta færst í vöxt og þegar menn eru farnir að gera út á þetta, ganga á milli fyrirtækja og stela þá er það dæmi sem allir verða að taka á.“

Gestur segir öryggisdeild fyrirtækisins vinna hörðum höndum að viðbrögðum við auknum fjölda þjófnaða en vill sem minnst gefa upp um forvarnir fyrirtækisins. andri@mbl.is