Vinir Ásvaldur og Eyþór eru afkastamiklir þegar kemur að stuttmyndagerð.
Vinir Ásvaldur og Eyþór eru afkastamiklir þegar kemur að stuttmyndagerð. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þeir eru leikarar, handritshöfundar og kvikmyndagerðarmenn. Og þeir stefna langt í faginu, ætla jafnvel að fljúga vestur um haf í framtíðinni.

Eftir Kristínu Heiðu Kristinsdóttur

khk@mbl.is

Þetta byrjaði nú allt á því að við vorum mikið að taka upp í síma og svo fórum við að gera leikrit í skólanum. En þegar pabbi minn eignaðist upptökuvél sem við máttum nota, þá fengum við algjört æði fyrir þessu,“ segir Ásvaldur Sigmar Guðmundsson en hann og Eyþór Gunnlaugsson vinur hans hafa verið óþreytandi undanfarið ár við að búa til stuttmyndir.

„Ætli þær séu ekki orðnar nokkur hundruð myndirnar sem við höfum gert. Sumar eru mjög stuttar, kannski bara þrjár mínútur, en aðrar eru aðeins lengri.“

Eyþór og Ásvaldur eru í sjötta bekk í Hvassaleitisskóla og skelltu sér á kvikmyndanámskeið í sumar.

„Við vildum læra hvernig á að gera stuttmyndir og fórum þess vegna til hans Marteins í Hvassaleitisskóla en hann er þar með kvikmyndamiðstöð allra skóla í Reykjavík og námskeiðið sem er á sumrin heitir Kvikmyndaskóli krakkanna. Þar lærðum við mjög margt, til dæmis hvernig á að klippa til myndir og líka hvernig á að gera ýmsar tæknibrellur. Okkur var sagt að á þessu námskeiði myndum við læra á tveimur vikum það sem er kennt á fimm árum í háskóla.“

Heimildarmynd um tíkina Perlu

Handritin að myndunum sem þeir gerðu á námskeiðinu segjast þeir hafa unnið út frá sögum sem þeir sömdu sjálfir. „Við spunnum líka heilmikið saman með krökkunum sem voru á námskeiðinu. Þetta var rosalega gaman og við gerðum til dæmis leirmynd sem tók fjóra klukkutíma að búa til en hún er bara nokkurra mínútna löng. Við gerðum líka tónlistarmyndbönd við allskonar lög.“

Þeir hafa prófað ýmis svið kvikmyndagerðarinnar og gerðu heimildarmynd um hundinn Perlu sem er í eigu Eyþórs og hefur reyndar verið þátttakandi í nokkrum mynda þeirra. „Eftir að við lærðum hvernig þetta er allt saman gert þá horfum við á kvikmyndir með allt öðrum augum. Við erum alltaf að spá í hvernig hitt og þetta hafi verið gert.“ Þeir eru ákveðnir í að fara á fleiri kvikmyndanámskeið á næsta ári, enda fékk Eyþór upptökuvél í afmælisgjöf nýverið.

Ætlar að prófa Hollywood

Eftir að námskeiðinu lauk hafa þeir félagar verið iðnir við kolann og nú eru þeir að vinna að stuttmynd sem heitir Bad Man. „Þar erum við eiginlega að gera grín að Batman eða leðurblökumanninum,“ segja þeir Eyþór og Ásvaldur sem fá krakka úr bekknum sínum til að leika hlutverk í myndunum en þeir bregða sér líka sjálfir oft í hlutverkin.

Þeir hafa báðir farið á leiklistarnámskeið og Eyþór hefur mikinn hug á að leggja leiklistina fyrir sig í framtíðinni. „Ég ætla að verða leikari og er að hugsa um að fara til Hollywood og athuga hvort ég geti fengið starf þar.“ Ásvaldur segist vilja starfa í kvikmyndaveri við gerð bíómynda og þá helst bæði sem leikari og kvikmyndagerðarmaður.

Halldór Ásgríms og Gunnar Birgis dáleiddust báðir

Þetta eru fjölhæfir strákar sem fara létt með að vippa sér á milli þess að leika í myndunum sínum, leikstýra þeim, vera á bak við myndavélina og klippa efnið til eftir á. Hugmyndirnar eru nægar og meðal annars er ætlunin að gera nokkrar stuttmyndir um Jón spæjó þegar þeir hafa lokið við gerð Bad Man-myndarinnar.

„Við ætlum að byggja þær myndir á leikriti sem við gerðum með tveimur öðrum strákum fyrir bekkjarkvöld í skólanum, en þetta var svona hálfgert James Bond-grín. Ásvaldur lék spæjarann góða en ég lék guðföðurinn, sem var vondi karlinn,“ segir Eyþór og bætir við að hann hafi líka leikið forsetann Ólaf Ragnar sem rétt slapp við að lenda í dáleiðslusúkkulaði. „En Halldór Ásgrímsson og Gunnar Birgisson dáleiddust báðir,“ segja þeir og hlæja.

Úr Jón Spæjó 3

Guðfaðirinn snýr aftur

Í búðinni

Aðstoðarmaður Jóns: Ég ætla að fá súkkulaði.

(Afgreiðslumaðurinn gefur honum súkkulaði, aðstoðarmaðurinn opnar það, það líður yfir hann og hann missir súkkulaðið.)

Jón Spæjó: (tekur upp súkkulaðið) Hvað er að þessu? Bíddu...þetta er örugglega dáleiðslusúkkulaði. Ég ætla aðeins að kíkja...nei, þá dáleiðist ég örugglega líka. Mmmm, Wonka! Eeee, þetta átti örugglega að gerast hjá mér því ég er frægur en þetta kom fyrir aðstoðarmanninn minn, þannig að þetta á örugglega eftir að koma fyrir fleiri fræga.

Búðarmaður: Viltu fá endurgreitt?

Jón Spæjó: Já! (Fær borgað). Kíkjum heim til Óla gríss, eða Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands. (Fer úr búðinni.)

Ólafur Ragnar: (Kemur í búðina) Ég ætla að fá eitt súkkulaði. (Borgar og er að fara að opna súkkulaðið þegar Jón Spæjó kemur svífandi inn.)

Jón Spæjó: Neeeeeei... (Hrifsar af Ólafi súkkulaðið).

Ólafur Ragnar: Þetta er mitt súkkulaði.