* Nú þegar styttast fer í Iceland Airwaves-hátíðina – einu alvöru uppskeruhátíð íslenskrar rokktónlistar – verður tónleikastaða-eklan í Reykjavík þeim mun meira áberandi.

* Nú þegar styttast fer í Iceland Airwaves-hátíðina – einu alvöru uppskeruhátíð íslenskrar rokktónlistar – verður tónleikastaða-eklan í Reykjavík þeim mun meira áberandi. Tugir hljómsveita og tónlistarmanna neyðast í hverri viku til að leika á öldurhúsum, sem að mjög takmörkuðu leyti eru hönnuð með lifandi flutning í huga og oftar en ekki taka listamennirnir sama og ekki neitt fyrir vinnu sína.

Hér áður fyrr þótti það óeðlilegt ef tónlistarmenn fóru fram á peningagreiðslu fyrir flutning sinn. „Frír“ bjór var gjaldmiðillinn sem kráreigendur kusu frekar að versla með og auðvitað leit sá díll nokkuð vel út í augum ungra tónlistarmanna sem hrósuðu stundum happi yfir því að fá að spila yfirleitt. Þessi þrælslund íslenskra tónlistarmanna hefur jafnt og þétt verið að hristast af þeim, eftir því sem sjálfstraust þeirra eykst, en enn vantar að um þennan geira menningarlífsins sé fundinn faglegur rammi.

Víst er að hagsmunafélög íslenskra tónlistarmanna hafa ekki sinnt hlutverki sínu af sama kappi og til dæmis systurfélög þeirra í Danmörku. Þar hefur því verið komið í gegn að ríkið styrkir um 20 tónleikastaði um land allt svo tryggt sé að listamennirnir fái greitt fyrir flutning sinn. Þar af fær Vega (Nasa þeirra Dana) rúmar 11 milljónir króna á ári.

Af þeim listgreinum sem stundaðar eru á Íslandi er tónlistin dáðust. Um það efast líklega enginn. En hvers vegna reynist okkur það þá svona erfitt að halda utan um fólkið sem sér um að skapa hana?