— 24stundir/Ómar
Eftir Sigrúnu Ernu Geirsdóttur sigrunerna@24stundir.is Íslenskur leir, olía og te eru meðal þeirra hluta sem fulltrúi frá snyrtivörufyrirtækinu Clarins hafði með sér heim til Parísar.

Eftir Sigrúnu Ernu Geirsdóttur

sigrunerna@24stundir.is

Íslenskur leir, olía og te eru meðal þeirra hluta sem fulltrúi frá snyrtivörufyrirtækinu Clarins hafði með sér heim til Parísar. Vörurnar eru hluti af Eldfjallameðferðinni á heilsulindinni Nordica Spa og vill Clarins athuga hvort vörurnar séu áhugaverðir framleiðslukostir.

Bað um sýnishorn

,,Hún kom hingað í sumar til að halda námskeið fyrir snyrtifræðinga og leit inn til okkar eins og hún hefur oft gert áður,“ sagði Ragnheiður Birgisdóttir, framkvæmdastjóri Nordica Spa.

Í þetta skipti prófaði fulltrúinn Eldfjallameðferðina og varð ákaflega hrifin. Hún starfar meðal annars við þróunarvinnu hjá fyrirtækinu og bað um að fá að taka með sér sýnishorn af leir, olíu og tei til efnagreiningar.

Þróað af Nordica Spa

,,Clarins er alltaf að leita að einhverju nýju og öðruvísi og þetta hafði hún aldrei séð áður. Henni fannst bæði áferð og virkni leirsins mjög spennandi,“ sagði Ragnheiður.

Í Eldfjallameðferð er notaður hveraleir, íslensk nuddolía og hreinsandi te og eru þetta allt vörur sem hafa verið þróaðar á Nordica Spa og hjá fyrirtækinu Sunnanvindi sem framleiðir þær.

Hefur Nordica Spa boðið upp á hana í fjögur ár og þótt nuddið hafi tekið einhverjum breytingum hafa vörurnar sjálfar verið þær sömu frá upphafi.

Langt ferli

Ragnheiður sagðist gera ráð fyrir því að athugun Clarins á vörunum og framleiðslumöguleikum tæki drjúgan tíma og ekki væri hægt að vænta neinna svara um framhaldið í bráð.

,,Ef Clarins hefur áhuga á framleiðslu myndu þeir áreiðanlega setja sig í samband við Sunnanvind,“ sagði Ragnheiður. Varðandi aðkomu Nordica Spa, ef af þessu yrði, sagði Ragnheiður að vissulega hefði hún áhuga á að vinna með Clarins að framleiðslunni. ,,Clarins hefur lagt mikla áherslu á náttúrulegar afurðir. Þeir eiga því góð samleið með okkur því við höfum alltaf talið mikilvægt að nota íslensk, náttúruleg hráefni og þróað okkar meðferðir út frá því,“ sagði Ragnheiður.

Viðurkenningin ánægjuleg

Ragnheiður sagði það alltaf ánægjulegt að fá viðurkenningu á því að vera að gera góða hluti. ,,Þetta leggst því allt mjög vel í okkur þótt ómögulegt sé að spá um framhaldið.“
Í hnotskurn
Nordica Spa býður nokkrar mismunandi nuddmeðferðir þróaðar af þeim sjálfum. Þær hafa allar íslenskt þema. Eldfjallameðferðin hefur verið í boði í þrjú ár. Eldfjallameðferðin tekur 80 mínútur og kostar 12.900 krónur.