Nordic Affect Lagboðin sem við heyrum oftast, þ.e. gemsahringitónar.
Nordic Affect Lagboðin sem við heyrum oftast, þ.e. gemsahringitónar. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.

Eftir Bergþóru Jónsdóttur

begga@mbl.is

ALLT verður nýtnum að notum, segir gamall málsháttur og hann á sérstaklega vel við, þegar talað er um tvö ný verk eftir Gunnar Andreas Kristinsson, sem frumflutt verða á tónleikum Nordic Affect hópsins í Þjóðmenningarhúsinu kl. 20 í kvöld. Verkin byggir hann á hringitónum. Halla Steinunn Stefánsdóttir er listrænn stjórnandi hópsins: „Hann langaði að semja tilbrigði og vildi sækja í sögu þeirra lagboða sem við heyrum hvað oftast í dag, og þeir koma úr gemsum.“

Ég held við getum öll þakkað Gunnari fyrir að hafa ekki valið hið of- og sí-hljómandi Nokia-lag; hann valdi hringitóninn „Badinerie“ úr svítu í h-moll eftir Bach, glaðlegt, fjörugt og bjart stef sem varla er vandalaust að setja í tilbrigðaform. „Gunnar Andreas er stærðfræðilegur í nálgun sinni. Hann leikur sér með stefið, en tilbrigðin eru ekki auðheyrð. Stefið heyrist á víð og dreif út frá þeim stærðfræðilegu pælingum sem einkenna verk hans. Snorri Sigfús Birgisson [tónskáld] hoppar inn með okkur til þess að stjórna verkum Gunnars. Það þurfti einhvern duglegan að telja.“

Hugmynd Gunnars að tilbrigðum varð til þess að ákveðið var að öll verkin á tónleikunum yrðu í tilbrigðaformi. „Við ákváðum að spinna í kringum hugmynd Gunnars, og leikum tilbrigði allt frá 17. öld og til okkar tíma. Þetta er allt frá tilbrigðum við þekkt þjóðlög, meðal annars frá Skotlandi, til flóknari verka eins og tríósónötu eftir Bach sem er samin yfir bassastef úr annarri sónötu eftir hann.“

NoA veturinn

Febrúar

Parísarkvartettar Telemanns og verk þeirra tónskálda sem hann hreifst af í París.

Nóvember:

Hádegistónleikar

Öðruvísi tónleikar og spennandi efnisskrá sem kynnt verður síðar.

Vor

Evrópusamband útvarpsstöðva

Alþjóðlegur útvarpstónleikadagur í tilefni af ártíð Händels. Ríkisútvarpið heldur tónleikana, og sendir þá beint til Evrópulanda og víðar. Þar verða meðal annars frumflutt verk eftir Huga Guðmundsson sem byggjast á verkum Händels.

Útvarpið hljóðritar sérstaklega eitt verkanna, og verður það gefið út á sam-evrópskum geisladiski.